137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að blanda mér í umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vakti máls á. Mér virðist orðið til siðs að farið sé með fyrirspurnir eða umræður í skildagatíð, um hvað menn hyggist gera ef þetta eða hitt gerist. Um það álitamál sem þingmaðurinn tók upp um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu hafa, hygg ég, allir stjórnmálaflokkar lýst því yfir að spurningin um aðild að Evrópusambandinu verði leidd til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í samþykktum flokkanna hef ég ekki orðið var við að það sé beinlínis ákvæði um hvort þjóðaratkvæðagreiðslur skuli vera bindandi eða ráðgefandi í þessu efni, (Gripið fram í.) a.m.k. ekki við þá skoðun sem ég hef látið fara fram á þeim. Það er þó sjálfsagt álitamál og nú kemur enn ein skildagatíðarspurningin og frammíkallið frá hv. þingmanni og þá get ég bara upplýst það að þetta mál er til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar. Þar höfum við fengið sérfræðinga í stjórnarskipunarrétti til að reifa mismunandi aðferðir sem hægt er að viðhafa. Þar hefur farið fram málefnaleg og ágæt umræða. Eins og gefur að skilja eru skiptar skoðanir en málið er þar að sjálfsögðu til málefnalegrar umræðu. Vonandi verður hægt að ná breiðri samstöðu um það hvernig því verður til lykta ráðið þar en það er ekki að mínu viti eðlilegt að menn séu alltaf með fyrir fram mótaða afstöðu strax í upphafi máls til allra þátta. Það á t.d. við um afstöðu mína til þessa álitaefnis, ég vil skoða gaumgæfilega öll þau stjórnarskipunarlegu og pólitísku rök sem eru í þessu máli og mun taka afstöðu til þess þegar þar að kemur. Það þýðir ekki endilega að ég hafi ekki einhverjar skoðanir á málinu en ég er reiðubúinn til að hlusta á önnur sjónarmið líka og það höfum við verið að gera í utanríkismálanefnd og munum gera (Forseti hringir.) þar til málið verður afgreitt af hálfu nefndarinnar.