137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[14:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þm. Illuga Gunnarsson til að verða ekki fyrir vonbrigðum með skýrslu Seðlabankans áður en hún lítur dagsins ljós. (Gripið fram í: Það er svona auka….) Við skulum taka umræðu um hana þegar hún birtist á næstu dögum og muna að sannarlega hefur náðst árangur í því á síðustu mánuðum að lækka vexti úr 18% í 12% þó að betur megi gera. Stöðugleikasáttmálinn sem hér var kynntur á dögunum er auðvitað gríðarlega mikilvægur þáttur í því að ná enn frekar niður vaxtastiginu í landinu og sömuleiðis áætlanir sem hér voru í ríkisfjármálum. Ég held að það sé mikilvægt í þessum sal við þær erfiðu aðstæður sem við búum við að við fögnum hverju því skrefi til framfara sem næst að taka í þeirri þröngu stöðu. Ég verð að segja að umfjöllunin um lánasamningana við Norðurlöndin hefur mér þótt nokkuð sérkennileg.

Það er auðvitað gríðarlegt ánægjuefni fyrir okkur að náðst skuli hafa saman við Norðurlöndin um þessa mikilvægu fyrirgreiðslu í okkar þröngu stöðu þar sem alþjóðlegir lánamarkaðir standa okkur einfaldlega ekki opnir. Að við höfum aðgang að þeim fjármunum sem hér um ræðir er lykilatriði í því að komast út úr þeim vanda sem við erum í — og því eigum við að fagna. Sannarlega eru þó vextirnir á þessu láni hærri en við höfum oft séð áður, 275 punkta álag. Menn geta kannski borið það saman við það 125 punkta álag sem mönnum þótti mikið í Icesave-samningnum. Þetta eru þá þau vaxtakjör sem okkur bjóðast best hjá nánustu vinaþjóðum okkar við þessar sérstöku aðstæður og við getum haft þau til hliðsjónar í umræðunni næstu daga. Það er þó nokkuð kímilegt að hér rjúki þingmenn upp og hrópi hátt yfir breytilegum vöxtum í þessum lánasamningum eftir að þeir hafa áður fjallað (Forseti hringir.) svo gagnrýnið (Gripið fram í.) um fasta vexti í Icesave-samningunum. (Gripið fram í.) Þetta er kannski spurning um að Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) reyni að hafa eina skoðun í heilan dag. (Gripið fram í.)