137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér fer fram og undra mig nokkuð á orðum hæstv. fjármálaráðherra áðan sem svari við fyrirspurn hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar.

Það liggur fyrir að það er miklu meira en bara afstillingarmál sem hér um ræðir. Grundvallaratriðið, eins og kom fram í ágætri skýrslu og framlagningu hæstv. ráðherra í gær um jöfnuð í ríkisfjármálum, við það verkefni sem við er að glíma er að auka aga, auka reglu og koma meiri festu á hlutina. Það gengur ekki að tala þannig til Alþingis að það sé eitthvert smámál að prjóna þetta út sem fyrir liggur. Við vitum það t.d. á grundvelli upplýsinga frá einstökum ráðuneytum að við fáum beiðni og það liggja fyrir þriggja milljarða útgjöld á einu verki, einu stykki flugvél til Landhelgisgæslunnar. Það er engin fjárveiting fyrir henni. Ég tel fyllilega tímabært að leggja fyrir þingið frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra til fjáraukalaga þannig að við getum setið yfir þessu, þótt ekki væri (Forseti hringir.) til annars en að auka aga og koma á meiri festu í samskiptum ríkis og framkvæmdarvalds.