137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er allt hárrétt sem hv. þingmaður fer hér með um samskipti löggjafar- og framkvæmdarvalds í þingræðisríki þar sem situr þingbundin ríkisstjórn. Ég er með þetta svona sæmilega á hreinu líka eins og hv. þingmaður.

Ég sagði ekki hér að það þyrfti ekki að endurskoða fjárlög yfirstandandi árs. Það er augljóst að þess þarf og það hefur þegar verið gert. Alþingi hefur þegar gert það og gert hér að lögum frumvarp um víðtækar ráðstafanir sem að sjálfsögðu breyta fjárlögum ársins, koma til með að hafa veruleg áhrif á niðurstöðu þeirra þannig að þær lögheimildir hafa stofnast. Að því leyti til má segja að bandormurinn sé ígildi fjáraukalagafrumvarps þó að hann sé ekki afstemmingarfrumvarp í hefðbundnum skilningi. Það eru því þegar afgreiddar af hálfu Alþingis fullnægjandi lagaheimildir vegna þeirra breytinga sem á slíkt kalla innan ársins.

Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á að í undirbúningi er að gera umtalsverðar breytingar á bæði undirbúningi og eftirfylgni fjárlaga. Það er ætlunin að aga þar vinnubrögð til mikilla muna, að gera eftirlit miklu reglubundnara og tíðara og undirbúa fjárlagagerð með öðrum hætti, með ákvörðunum fyrr á árinu og rammafjárlögum til lengri tíma og þar fram eftir götunum.

Mér þykir vænt um að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson minnir hér á erfðasyndir eins og þá að það er að koma eitt stykki landhelgisgæsluflugvél til landsins. Það gleymdist að gera ráð fyrir henni í fjárlögum ársins eða að menn gerðu þar á skemmri skírn, (Gripið fram í.) gerðu það mjög á skemmri skírn og það er stór reikningur — það er alveg hárrétt — sem menn af einhverju óraunsæi horfðu fram hjá við fjárlagaafgreiðsluna í algjörlega óljósri von um að hægt yrði að leysa málið með öðrum hætti og fá vélina á leigu eða kaupleigu, sem ekki gekk eftir og voru sáralitlar líkur á að gæti gengið eftir. (Gripið fram í.) Menn þurfa því að takast á við ýmsar erfðasyndir og á því verður tekið í fjáraukalagafrumvarpi haustsins.

Ég legg svo bara aftur áherslu á að það er einmitt það sem við ætlum að afleggja, þ.e. það hugarfar að menn geti (Forseti hringir.) verið áskrifendur að fjáraukalögum og treyst því að þeir megi keyra fram úr og fái það bætt í fjáraukalögum. (Gripið fram í: Hárrétt.) Það er nákvæmlega (Forseti hringir.) það sem hér stendur til að afleggja.