137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:34]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það er réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.

Síðan var rætt um almennar aðgerðir og þörfina á að koma til móts við fólk með almennum aðgerðum. Að ákveðnu marki get ég tekið undir það. Ég verð þó að ítreka það sem ég hef margoft sagt bæði í þessum ræðustól og annars staðar að þegar mjög er sótt að ríkinu á öllum sviðum verður það að vanda mjög vel hvar það beitir kröftum sínum. Það verður að beita kröftum sínum að þeim sem lakast standa þannig að það er ekki raunhæft að ríkið reyni með einhverjum almennum og mjög dýrum aðgerðum að lækka lán allra.

Hins vegar blasir við að meðal þeirra sem eiga í mestum vanda núna eru þau 11% sem greiða yfir 30% af sínum ráðstöfunartekjum í afborganir og vexti af bílalánum. Sá hópur fellur því vissulega vel að þeirri skilgreiningu að vera markhópur fyrir markvissar aðgerðir sem beinast þá að þeim hópi sérstaklega. Ég á ekki von á öðru en að sá starfshópur sem vikið var að, og kom auðvitað ekki saman í fyrsta sinn í gær eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson virtist telja, muni koma með tillögur að aðgerðum sem hjálpa þeim og hugsanlega þá fleirum einnig.