137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Á ferðum mínum um landið sem fréttamaður fyrr á tíð og frambjóðandi og nú síðast alþingismaður hefur maður oft haft það á tilfinningunni að í þessu landi búi tvær þjóðir, fólk úti á landi sem á síðustu árum hefur haft lítinn aðgang að lánsfé og síðan fólk á höfuðborgarsvæðinu sem hefur haft mun meiri aðgang að lánsfé. Þessa sér stað í sjálfu sér í umræðu í þjóðfélaginu því að á stjórnmálafundum úti á landi er ekki jafnmikið spurt um niðurskurð og skattahækkanir og hér á suðvesturhorninu.

Engu að síður má ætla að vandi fólks sé víða á landinu mjög mikill varðandi afborganir af íbúðum, bílum og öðrum fjárfestingum. Þess vegna langar mig að vita hvort landsmenn allir búi við sömu þjónustu þegar kemur að ráðgjafarþjónustu um fjármál heimila. Reyndar er það von mín að þingsályktunartillaga sem hv. þm. Eygló Harðardóttir flytur og ég hef stutt um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum nái líka fram að ganga. Mig langar að vita hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort landsmenn allir muni sitja hér við sama borð, hvort ráðgjafarþjónusta um fjármál heimilanna verði að mestu bundin við Reykjavík og fólk úti á landi þurfi þá að koma hingað með einhverjum leiðum til Reykjavíkur til þess að afla sér þjónustu á þessu sviði eða hvort horft verði til landsins alls í þessum efnum og komið verði á fót ráðgjafarþjónustu úti á landi og þá hve víða og hvort hún sé yfirleitt komin af stað. Þetta eru mínar spurningar til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra.