137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Ég óttast því miður að þau tímabundnu vandræði sem hæstv. ráðherra talaði hér um áðan eða þær tímabundnu lausnir verði eitthvað aðeins meira en tímabundnar en ég skildi orð hans þannig að þá yrði það bara skoðað og lengt í ef á þyrfti að halda og fagna því mjög. Ég fagna því líka að Ráðgjafarstofan skuli hafa verið efld.

Það er nú einu sinni þannig að úti á landi eru ýmsar ríkisstofnanir sem að mínu viti gætu verið vel til þess fallnar að taka að sér einhvers konar þjónustu sem þessa, jafnvel stofnanir sem heyrst hefur — nota bene, ég vil nota þau orð — heyrst hefur að standi jafnvel til að breyta. Þar á ég við skattstofur, sýslumenn og annað þar sem ríkið er nú að reka þó nokkuð stór batterí. Hugsanlega mætti nota þá sérfræðiþekkingu sem þar er eða jafnvel — hugsanlega þarf einhvers staðar að bæta við — en alla vega nota þessar stofnanir til þess að taka að sér verkefni sem þessi að einhverju leyti. Það þurfa ekki endilega að vera bankarnir.