137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel mjög mikilvægt að slík ráðgjafarþjónusta skili sér til landsbyggðarinnar. Það er brýn þörf á því alveg jafnt og á höfuðborgarsvæðinu þó að bankahrunið hafi kannski ekki komið alveg með sama hætti við landsbyggðina vegna þess að veðhæfni eigna er ekki söm þar eins og var komið inn á hjá hæstv. félagsmálaráðherra, en hann nefndi að það væri verið að skoða að setja upp útibú á Fjarðabyggð, Akureyri og Egilsstöðum. Ég vil minna hann á Ísafjarðarbæ og ég vil benda á að það mætti skoða að fara í samstarf við verkalýðsfélögin. Það væri hægt að nýta verkalýðsfélög og þjónustu sem þau bjóða upp á og kanna möguleika á þessu samstarfi. Mér finnst að ef menn eru að fara með þessa þjónustu inn í bankana að þá sé það of skylt og ég bendi hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) á að skoða samstarf við verkalýðsfélögin.