137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir ágætissvör. Ég fagna því að hann gerir sér grein fyrir stöðu mála, að það þarf líka að vera með fjármálaráðgjöf úti á landsbyggðinni og eins og hann talaði áðan þá bind ég vonir við að hann muni verða við því.

Mig langar að vekja máls á einu atriði. Það er að ég tel mjög mikilvægt að þessi ráðgjafarþjónusta úti á landsbyggðinni verði efld vegna þess að eins og við vitum liggur fyrir nýtt frumvarp um sparisjóðina og þá held ég að mikil þörf verði fyrir fjárhagsaðstoð hjá mörgum heimilum og fjölskyldum úti á landi. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa bent á lausnir, hvort heldur þær verða hjá verkalýðsfélögunum eða sýslumönnum. Það er hægt að styðja. En fyrst og fremst er mikilvægt að ráðherrann fylgi þessu eftir þannig að þetta verði með þeim hætti að allir sitji við sama borð.