137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar góðu umræður og góðu ábendingar sem fram hafa komið. Sú ábending sem hér kom fram um sýslumenn er þeim annmörkum háð að sýslumenn eru eðli málsins samkvæmt vanhæfir í að aðstoða skuldara vegna þess að þeir eru innheimtumenn ríkisins og fólk í alvarlegum greiðsluvanda er almennt í skuld við hið opinbera. Þá þurfa sýslumenn að bera tvo hatta og það er aldrei gott. Og alveg eins og við viljum ekki fórna hlutleysi Ráðgjafarstofunnar gagnvart bönkunum þá er það eins með sýslumenn að það verður þá að létta af þeim þessu hlutverki eða koma umboðshlutverkinu í héraði fyrir með öðrum hætti. Þar vil ég sérstaklega nefna að í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir sameiningu stofnana sem undir félagsmálaráðuneytið heyra á sviði velferðar og vinnumála. Auðvitað skapar það ákveðið tækifæri fyrir samvinnu við sveitarfélögin og félagsþjónustu sveitarfélaga á hverjum stað með það að markmiði að verja betri opinbera þjónustu á litlum stöðum þar sem hægt væri að samþætta félagsþjónustu sveitarfélaganna og erindrekstur ríkisins sem nú er í höndum Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits. Þar með væri komin stofnun sem gæti verið með mjög víðfeðmt net og þjónað út um land með jákvæðum hætti. Þangað til við komumst lengra í slíkum hugleiðingum munum við auðvitað bara halda áfram að vinna þetta mál með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Það er mjög gott að heyra ábendingar um samninginn við verkalýðsfélög. Ég ítreka það að við byggjum þjónustuna eftir því sem þörfin verður ljósari. Við erum tilbúin til samstarfs við öll sveitarfélög sem þess óska um þá þjónustu sem sveitarfélögin telja að þurfi að gerast og við erum tilbúin að leita samstarfs við hvern aðila sem er til að veita þjónustu eftir því sem þörf er á.