137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan hefur nefndin haft þetta mál til umfjöllunar í þrjár vikur og það er ekki óeðlilega stuttur tími. Miðað við aðgerðir á fjármálamarkaði og þær breytingar sem hafa verið gerðar á þeim lögum sl. vetur frá bankahruninu vil ég leyfa mér að fullyrða að þetta sé nokkuð langur tími, ekki óeðlilega langur tími en ekki óeðlilega stuttur að mínu viti.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndarmönnum fyrir ötula fundarsetu og mjög líflegar umræður í nefndinni sem færa mönnum heim sanninn um að sparisjóðirnir eiga hauka í horni þar sem eru þingmenn á Alþingi Íslendinga og við skulum sameinast um að koma þessum lögum í gegn og bæta starfsskilyrði þeirra. Ég útiloka ekki að til þess komi að endurskoða eitthvað af þessum lögum í þeirri heildarendurskoðun sem fram undan er á lögum um fjármálafyrirtæki.