137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hlutirnir eru að breytast mjög hratt í hinu pólitíska litrófi. Ég hef ekki tekið það saman hversu oft hv. þingmaður í stjórnarandstöðu talaði um að það væri of skammur tími í hinum ýmsu málum. En það væri kannski athyglisvert að gera það. Ég vek athygli á því að hér er hvorki um meira né minna að ræða heldur en sparisjóðakerfið á Íslandi. Allir umsagnaraðilar — ég fullyrði, allir — voru sammála því að reglurnar hafi verið skýrar fram til þessa og sömuleiðis sammála því að það frumvarp er lá fyrir var ekki skýrt varðandi skilgreiningar og ýmislegt sem að þessu snýr. Fjármálaeftirlitið bað sérstaklega um að við tækjum lengri tíma til að fara yfir þessi mál. Hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, segir hér að þessar þrjár vikur hafi bara verið feikinógur tími og velti því meira að segja fyrir sér hvort þær hefðu verið of langur tími. Þarna erum við hv. þingmaður algerlega ósammála. Ég tel að við höfum lært það og fer betur yfir það í ræðu minni á eftir, (Gripið fram í.) að eitt af því sem við þurfum að læra er að við þurfum að vanda betur til lagasetningar sem þessarar.