137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér hafa komið fram deildar meiningar um það hvort við höfum náð að vinna þetta nógu vel eða ekki. Það er skoðun minni hlutans að við hefðum þurft mun meiri tíma til að vinna þetta frumvarp og að ýmsum spurningum sé enn ósvarað. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur skilning hennar á því hvert sé samfélagshlutverk sparisjóðanna. Það kemur fram í frumvarpinu að sparisjóðir eigi að skilgreina samfélagslegt hlutverk sitt.

Ég hef líka áhuga á að heyra hennar skoðun á muninum á stofnfé og hlutafé því svo virðist vera að meira að segja hæstv. ráðherrar virðast ekki alveg gera sér grein fyrir því að grundvallarmunur er á þessu tvennu. Því væri ágætt að heyra skilgreiningar hv. formanns viðskiptanefndar á þessu.