137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni viðskiptanefndar Álfheiði Ingadóttur fyrir framsöguna og þakka nefndinni fyrir að hafa unnið vel í erfiðu verkefni. Þó að ég segi að unnið hafi verið vel er ég svolítið óöruggur með niðurstöðuna hvað varðar þessa niðurfærslu á stofnfé vegna þess að við þekkjum til að í mörgum sparisjóðum — það er með mjög ólíkum hætti sem menn hafa gerst stofnaðilar í sparisjóðum, allt frá því að vera í þessu sem fjárfestingu og yfir í að reyna að bjarga fjármálastofnunum í sínu héraði.

Mig langar því að spyrja um 7. gr. og umfjöllunina um lækkun stofnfjár í framhaldinu, þ.e. hvaða hugmyndir hafi komið fram — nú er náttúrlega ein mínúta stutt til að svara slíku — og hvort menn hafi velt því fyrir sér að setja þar eitthvert lágmark, til dæmis að niðurfærslan yrði ekki nema niður í hlutinn 1, sem mundi þá hugsanlega verja að minnsta kosti suma stofnfjáreigendurna um leið og hægt væri að taka á einhverjum öðrum. Mig langar aðeins að heyra hvaða vangaveltur voru í nefndinni (Forseti hringir.) um þetta atriði.