137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægður með að heyra að menn hafa ekki hugsað sér að keyra stofnféð niður í núll. En mig langar aðeins til að heyra ítarlegar um — ég hlustaði á ræðuna vel áðan — hvað menn hafi rætt um þetta hlutfall. Er hægt að setja einhverja tölu sem vörn í þessu? Er eitthvað í lögunum sem segir eftir þessa breytingu að það sé ekki hægt að strauja þetta niður í núll? Mér finnst afar mikilvægt að þetta komi fram og að við reynum að verja, eins og ég segi, þá sem hafa þarna verið að leggja inn sparifé sitt, tryggja að menn haldi að einhverju leyti sínu og þá voninni um að með bættri aðkomu sparisjóðanna fái þeir hluta af sínu til baka ef slíkt er hægt. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er ekki auðvelt verkefni eftir það sem á undan er gengið þó að sameiginlegur vilji okkar þingmanna sé einmitt að verja sparisjóðakerfið og við höfum talið ríka ástæðu til að sparisjóðirnir lifðu þrátt fyrir allt sem sjálfstæðar stofnanir og ekki í ríkiseigu.