137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir fær mig ekki til að lýsa því hér úr ræðustóli að aldrei verði hægt að gera betur. Það kemur ekki til. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er alltaf hægt að gera betur. Ég sagði hins vegar að þessi niðurstaða sem við erum hér komin með er að mínu mati mjög góð. Hún er afrakstur mjög vandaðrar vinnu í nefndinni. Það er þannig. Ég tel ekki að við mundum bæta okkur neitt með því að halda fleiri fundi eða liggja meira yfir málunum.

Hvað 1. júlí varðar þá nefndi ég það áðan að því miður tókst ekki það sem var lagt upp með, meðal annars í samráði við þingflokksformenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að reyna að flýta þessu máli þannig í gegnum þingið að það gæti orðið að lögum fyrir 1. júlí. Það tókst ekki því miður. En þar sem það tókst ekki verður málið bara að hafa sinn gang.