137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa umræðu og þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Ég tel rétt að nefna það að ekki er rétt að gera of mikið úr því að það ríki mikil óvissa um starfsemi Landhelgisgæslunnar, hún hefur getað sinnt þeim útköllum sem orðið hafa og það hefur gengið blessunarlega vel fyrir sig. En það leysir okkur ekki undan þeirri ábyrgð að búa þannig í haginn fyrir framtíðina að viðunandi sé. Ég tek alveg undir það að öryggi sjófarenda og landsmanna er forgangsmál sem verður að tryggja.

Hvað varðar sameiningu stofnana hef ég áður sagt að það er ekki ljóst hvort sameining leysi fjárhagsvanda Landhelgisgæslunnar. Ég tel að það verði þó að skoða þetta með opnum huga en ég bið um að einnig verði tekið með í reikninginn að í þeim stofnunum sem nefndar hafa verið til sögunnar, í Landhelgisgæslunni og Varnarmálastofnun, starfar fólk, þetta er þeirra vinna og það er óviðunandi fyrir þetta fólk að endalaust sé verið að tala um sameiningu á óljósum nótum. Það verður þá að ráðast í þá vinnu að skoða það sem fyrst hvort það sé raunhæfur möguleiki. Í því sambandi vil ég nefna þá skoðun mína, burt séð frá einhverri togstreitu sem er um hvorum megin hryggjar þetta lendir, að starfsemi Landhelgisgæslunnar er öflug starfsemi innan lands, innan þess ríkis sem Ísland er.

Hvað varðar tilkomu hinnar nýju flugvélar hefur hún nokkur áhrif. Gert er ráð fyrir því í viðbragðsáætlunum Landhelgisgæslunnar að hún geti fylgt þyrlu á haf út og er þá treyst á björgunarbát sem hún gæti þá fleygt út, en þetta er auðvitað ekki eins afgerandi og það væri ný þyrla sem bættist við. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Viðræður við lífeyrissjóði hafa ekki enn þá hafist vegna þess að ég tel að við þurfum að safna þessum hugmyndum saman og jafnframt að gera okkur grein fyrir því hvernig þyrlurekstur við viljum hafa áður en ráðist er í slíkar viðræður.