137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:25]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns gaf tilefni til ýmissa athugasemda. Ég hygg að formaður hv. viðskiptanefndar muni bregðast við orðum hv. þingmanns um Fjármálaeftirlitið.

Hæstv. forseti. Ég hlustaði mjög grannt á ræðu hv. þingmanns og efnislega á það sem hann sagði en ég verð að játa að ég skildi ekki almennilega málflutning hv. þingmanns. Hann sagði í öðru orðinu: „Við höfum ekki gefið okkur þann tíma sem þarf til að vinna málið.“ Og í næstu setningu sagði hann: „Hlutirnir lagast ekki við að fresta þeim.“ Ég skrifaði þetta orðrétt eftir hv. þingmanni.

Ég verð að segja að þegar hv. þingmaður talar um að þetta mál sé unnið í flýti, að það sé flumbrugangur á því, fáir fundir hafi verið haldnir og lítið samráð þá hlýt ég að vísa því á bug. Málið hefur verið til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd í þrjár vikur. Það hefur verið til umfjöllunar á mörgum fundum. Við höfum fengið á annan tug gesta á fund nefndarinnar til þess að fara yfir sjónarmið og það hefur ítarlega verið komið til móts við óskir og sjónarmið stjórnarandstöðunnar um fundi, um gögn og um ítarlega yfirferð. Ég átta mig því hreinlega ekki á þessu. Þó að, frú forseti, oft megi gagnrýna þingið fyrir hraða málsmeðferð á hinum ýmsu málum þá hygg ég að í þessu tilfelli eigi það ekki við.

Ég verð að segja það hér, frú forseti, í lokin að ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega til þess að hrósa hv. formanni viðskiptanefndar Álfheiði Ingadóttur fyrir afar góð tök á þessu máli, snöfurmannleg vinnubrögð og góða fundarstjórn í afar flóknu og erfiðu máli. Mér finnst að hv. þingmanni væri nær að þakka hv. formanni viðskiptanefndar fyrir vinnubrögðin (Forseti hringir.) og samstarfsviljann sem sýndur hefur verið í þessu máli.