137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir málefnalegt og gott andsvar. Hv. þingmaður staðfesti það sem ég hef verið að ræða um hér og ég átti ekkert von á neinu öðru því að við erum ekkert að deila um það.

Ég er með sömu áhyggjur og hv. þingmaður um að allar líkur séu á því að við verðum kölluð saman aftur út af þessu máli. Það liggur alveg fyrir að þegar við lentum í bankahruninu þá unnu menn hlutina af ástæðu alveg gríðarlega hratt og í rauninni eftir á að hyggja finnst mér alveg ótrúlegt hvað vel hefur tekist til miðað við undir hvaða pressu, bæði tímapressu og annarri pressu, menn voru að vinna þar.

Ég er ekki að gera hér allar athugasemdir Fjármálaeftirlitsins að mínum sjónarmiðum. En ég er algjörlega sammála Fjármálaeftirlitinu um að skynsamlegra hefði verið að fara yfir þessa þætti betur. Á sama tíma og við erum alveg sammála um það, meiri hluti og minni hluti, sem snýr hreint og klárt að því að hjálpa framkvæmdarvaldinu að framkvæma þann þátt neyðarlaganna sem snýr að endurreisn sparisjóðanna — það er nokkuð sem menn ættu að reyna að vinna eins hratt og mögulegt er — þá er, alveg eins og hv. þingmaður nefndi, dýrt ef okkur tekst ekki vel til með rekstrarumhverfi sparisjóðanna.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem þekkir nú þessi mál betur en flestir, er hér í þinginu og hann var með mjög málefnalegar og eðlilegar spurningar eftir umfjöllun nefndarinnar alveg eins og umsagnaraðilarnir og því miður þeir aðilar sem vinna við þessi mál (Forseti hringir.) gera eftir að við erum búin að samþykkja þessi lög.