137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við munum aldrei komast að því hvort ákvæði sem hét útvistun við framlagningu frumvarpsins en heitir núna samvinna sparisjóða, þ.e. hvort við nefndarmenn hefðum breytt því ef við hefðum haft lengri tíma. Það komu bæði athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu og sömuleiðis frá Samkeppniseftirlitinu við það og við munum ekki komast að því ef við förum ekki betur yfir það hvort við komumst að annarri niðurstöðu.

Þegar við erum að tala um rekstrarumhverfi sparisjóðanna held ég til dæmis að flestir komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið skynsamlegt að skoða hvað menn hafa gert í öðrum löndum, til dæmis í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndunum. En eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur bent á þá hefur það ekki verið gert. Við fórum ekki yfir það. Eru ekki flestir sammála því að það væri nú skynsamlegt að gera það í tengslum við jafnumfangsmikla (Forseti hringir.) lagabreytingu og raun ber vitni?