137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Rekstrarafkoma sparisjóðanna var mjög slæm árið 2008. Hjá flestum þeirra var veruleg rýrnun á eigin fé, einkum vegna lækkunar á hlutabréfaverði og gangverði eignarhluta í félögum. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatt neikvæð hjá flestum þeirra. Það er því ljóst að staða sparisjóðanna er erfið um þessar mundir og margir þeirra hafa þörf fyrir að auka stofnfé til þess að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi, hvort sem nýtt stofnfé kemur frá ríki, sveitarfélögum eða öðrum aðilum sem vilja styrkja rekstur þeirra.

Margir sparisjóðir hafa á síðustu árum hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum mikinn arð og gengið um leið á varasjóði þeirra. Vegna tapreksturs á síðasta ári er nú svo komið að í mörgum þeirra er varasjóður uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður, þ.e. útgefið stofnfé er orðið hærra en annað eigið fé. Við þær aðstæður verður að telja ólíklegt að nýir aðilar séu tilbúnir að leggja fram nýtt stofnfé og hefur ríkissjóður til að mynda sett það skilyrði fyrir fjárframlagi samkvæmt ákvæðum laga 125/2008, þ.e. neyðarlaga, að varasjóður sé ekki neikvæður.

Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til á ákvæðum VIII. kafla laganna nú er að auðvelda sparisjóðum að sækja sér nýtt stofnfé, m.a. á grundvelli þessara laga, 125/2008, með því að geta lækkað núverandi stofnfé til að mæta taprekstri síðustu ára og með þeim hætti jafnað varasjóð sparisjóðanna. Með þeirri aðgerð taka núverandi stofnfjáreigendur vissulega á sig tap sparisjóðsins á síðasta ári að því leyti sem það er og var umfram varasjóð. Miðað við núverandi löggjöf um sparisjóði er ekki talin heimild til þess að lækka stofnfé.

Með þessu frumvarpi er einnig verið að styrkja rekstrargrundvöll og samvinnu sparisjóðanna. Um langt skeið hafa þeir átt í ýmiss konar samvinnu, t.d. um tölvuvinnslu, markaðssetningu og námskeiðahald svo og ákvarðanir um vexti og gjaldskrárliði. Þessi samvinna hefur auðveldað minni sparisjóðum þátttöku í samkeppni á fjármálamarkaði. Samkeppniseftirlitið hefur haft samstarf sparisjóðanna til skoðunar og má búast við að þrengt verði að möguleikum þeirra til samstarfs nema til komi sérstök ákvæði í lögum sem heimili það samstarf. Og það erum við að gera í þessu frumvarpi.

Það er hins vegar erfitt að meta hvort þessar ráðstafanir dugi. Í reglum frá 18. september var gengið út frá því að 20% framlag ríkisins mundi duga sparisjóðunum en uppfært mat á stöðu þeirra hefur sýnt að margir þeirra eru komnir með neikvætt eigið fé, þ.e. stofnfé er orðið meira en eigið fé. Því eru sparisjóðirnir tæknilega gjaldþrota, ef svo mætti að orði komast, ef ekki kemur til aðstoð. Raunsætt mat þeirra sem skoðað hafa málið er að í tilviki þeirra sparisjóða sem verst standa þurfi meira að koma til og alls óvíst er að þeir finnist sem reiðubúnir eru til að leggja fjármuni í veikburða fjármálafyrirtæki.

Mig langar að víkja að neyðarlögunum, en ég lít svo á að það skref sem við stígum nú sé einungis útfærsla eða næsta skref.

Í neyðarlögunum, nr. 125/2008, segir, með leyfi forseta, í 2. gr.:

„Við þær sérstöku aðstæður sem greinir í 1. gr. er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Ríkissjóður fær stofnfjárbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum sem endurgjald í samræmi við eiginfjárframlag sem lagt er til. Fjárhæð útgefinna stofnfjárhluta til ríkissjóðs skal að nafnverði nema sömu upphæð og það fjárframlag sem innt er af hendi og skal það stofnfé njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði.“

Svo segir:

„Þegar um er að ræða sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki skal hið nýja hlutafé nema sama hlutfalli gagnvart öðru útgefnu hlutafé og fjárframlagið er í hlutfalli við bókfært eigið fé félagsins. Ákvæði þetta tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á.“

Það er því mitt mat og nefndarinnar að með ákvæðum neyðarlaga samkvæmt framangreindu sé beinlínis gert ráð fyrir að stofnfé sjóðanna verði fært að raunverði. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi er hér því aðeins verið að útfæra texta neyðarlaganna og skýra betur það sem ekki var gert í reglunum frá 17. desember. Stofnfjáraukning sparisjóðanna verður að fylgja almennum jafnræðisreglum og útfærslan á niðurskrift stofnfjár í frumvarpinu er til að laga stofnfjáraukninguna að almennum jafnræðisreglum enda væri tillegg hins opinbera á öðrum forsendum afar hæpið ef ekki beinlínis andstætt stjórnarskrá.

Mig langar að víkja aðeins að 2. gr. í frumvarpinu eins og það lítur út í dag, en stofnfjárskrá er að okkar mati þannig úr garði gerð að hún á að vera aðgengileg öllum. Það er mikilvægt til þess að inntaka nýrra stofnfjáreigenda og aukning stofnfjár sé gagnsætt ferli til að skapa traust á sparisjóðum og tryggja hlutverk þeirra, m.a. með tilliti til byggðafestu og samfélagslegs hlutverks. Hér er einnig mætt þeirri gagnrýni að sparisjóðirnir séu lokaðar klíkur þar sem menn geti í krafti stöðu sinnar hlutast til um lánveitingar o.fl.

Mig langar næst að víkja að 7. gr. Ég lít svo á að útfærsla hennar í dag sé forsenda þess að einhver vilji leggja sparisjóðunum til fjármagn, þ.e. að búið sé að rétta af samspil milli eigin fjár og stofnfjár, að varasjóðir séu ekki neikvæðir. Ef svo er ekki eru nýir aðilar í raun að kaupa nýja hluti á miklu yfirverði, fá ekki hlutdeild í samræmi við framlag sitt. Hvað sem mönnum finnst um sanngirnina í þessu og söguna er ljóst að í þeim tilvikum þar sem sparisjóðirnir eru komnir með neikvætt eigið fé, þ.e. neikvæða varasjóði, eru stofnfjáreigendur nú þegar búnir að tapa því sem nemur hinum neikvæða mismun og ef ekki kemur til björgunaraðgerða eru slíkir sparisjóðir tæknilega komnir í þrot.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hér er einungis verið að gefa heimild til lækkunar á stofnfé og þá eingöngu ef stofnfjáreigendur sjálfir kjósa svo. Staða sparisjóða er mjög misjöfn og því er mikilvægt við útfærslu laganna að hvert tilvik fyrir sig sé skoðað. Það er mín skoðun að gæta þurfi sérstaklega að byggðafestu, þeim hagsmunum sjóðsins að náið samband sé við nærumhverfi hans og starfsumhverfi, það sé gott því að klippi hann á það samstarf og missi það á hann sér ekki viðreisnar von sem fjármálastofnun á því svæði.

Þá tel ég einnig að gæta þurfi að því að þeir stofnfjáreigendur sem taka á sig lækkun stofnfjár nú eigi að hafa góða möguleika á að endurheimta fé sitt yfir lengri tíma. Þannig verði gætt að hagkvæmum rekstri og að arður af kjarnastarfsemi og annarri starfsemi verði til staðar svo að hægt sé að launa núverandi stofnfjáreigendum tryggð þeirra og bæta þeim með einhverjum hætti tap sitt yfir lengri tíma. Um leið ætti væntanlega að takast að gera sjóðina áhugaverða kosti fyrir nýja stofnfjáreigendur. Ég ítreka að það er mikilvægt að taka tillit til þeirrar misjöfnu stöðu sem einstaka sparisjóðir eru komnir í og þar með þeirra samfélaga sem þeir tengjast, t.d. vegna þess hvernig stofnfjáreigendahópurinn er samsettur.

Samband íslenskra sparisjóða fagnaði þessu heimildarákvæði og tekur undir það lykilatriði að hér sé eingöngu um heimild að ræða. Þar virðast menn gera sér grein fyrir því að með þessu er opnað á mögulegar björgunaraðgerðir til handa sparisjóðunum.

Í áliti þeirra segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við gerum ráð fyrir að í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu og aðkomu ríkisins sem er fram undan hjá sparisjóðunum muni vera nauðsynlegt að lækka stofnfé.“

Það getur vel farið svo að aðstoð ríkisins dugi ekki til að gera eigið fé jákvætt og gera sparisjóðina að rekstrarhæfri einingu. Það þarf meira að koma til, kröfuhafar verða að koma til með eftirgjöf skulda, breytingar á skuldum í stofnfé, og það sama á við um ríkið en velflestir sparisjóðanna skulda í dag ríkinu umtalsverða fjármuni í gegnum Sparisjóðabankann.

Í þeim tilvikum sem framlag ríkisins dugar til að koma hlutfalli sparisjóðs upp fyrir 12% ræðst vægi eldra stofnfjár og nýs stofnfjár af nafnvirði eigin fjár sem er fyrir ásamt niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og nýs stofnfjár. Í þeim tilvikum þar sem framlag ríkisins dugar ekki til að koma þessu CAD-hlutfalli upp fyrir 12% þarf þar af leiðandi að grípa til frekari ráðstafana eins og ég rakti áður. Í slíkum samningum koma margir að borðinu og þá er niðurskrift stofnfjár byggð á viðskiptalegum forsendum þar sem allir sem að samningunum koma þurfa að vera samþykkir þeim aðgerðum sem gripið er til til að bjarga viðkomandi sparisjóði. Niðurstaða um niðurskrift kemur í slíkum tilvikum af niðurstöðu sem fengin er með viðskiptalegum samningum allra sem koma að.

Þess má geta að Seðlabanki Íslands er sammála þessari nálgun en í bréfi til fjármálaráðuneytisins í lok apríl leggur hann á það ríka áherslu að eftirfarandi atriðum verði fylgt ef heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði verði nýtt til endurfjármögnunar sparisjóðanna.

Hefst nú tilvitnun:

1. Breytingar verða gerðar á yfirstjórn viðkomandi fjármálafyrirtækja ef þörf krefur.

2. Framtíðararðgreiðslur verða háðar takmörkunum.

3. Nýjar viðskiptaáætlanir liggja fyrir, þar með talið nákvæmar áætlanir um lækkun kostnaðar.

4. Leitað verður leiða til að fá fleiri aðila til að leggja stofnunum til nýtt fé.

5. Tryggt verður að það tap sem nú liggur fyrir verði borið af núverandi eigendum áður en ríkið leggur til nýtt eigið fé.

Svo segir einnig:

Í reglum fjármálaráðuneytis um framlag til sparisjóða kemur fram að lögbundið eiginfjárhlutfall sparisjóðanna eftir framlag ríkissjóðs verði ekki lægra en 12%. Í þessu sambandi vill Seðlabanki Íslands taka fram að mikilvægt er að eigið fé sparisjóðanna verði metið af Fjármálaeftirlitinu og endurskoðendum sparisjóðanna og niðurskrifað eins og þörf krefur áður en ríkissjóður leggur fram nýtt fé.

Mig langar næst að víkja að 8. gr. frumvarpsins, Ráðstöfun hagnaðar. Við breyttum því í meðförum nefndarinnar en við teljum að of miklar takmarkanir á útgreiðslu arðs hafi verið í eldri útgáfunni. Hér vil ég víkja sérstaklega að tveimur sjónarmiðum, að mikilvægi þess að styrkja eiginfjárstöðu sparisjóðsins og einnig því að gera aukningu og styrkingu á stofnfé í sparisjóð að eftirsóknarverðum valkosti fyrir fjármagnseigendur, þ.e. að fólk vilji setja fjármuni sína í stofnfé í sparisjóði. Þess vegna þurfum við að auka möguleika aðila á útgreiðslu arðs.

Víkjum að 9. gr. Við opnum mikið á samstarf sparisjóðanna með þeim breytingum sem við gerum á frumvarpinu. Því teljum við mikilvægt, eins og áður greindi, að auka möguleika þeirra til samstarfs og hagræðingar enda mikilvægt að treysta rekstrargrundvöll þeirra. Framlag af venjubundnum rekstri hefur verið mikið vandamál og því verða sparisjóðirnir að sameinast um ákveðna þjónustu til að geta mætt kröfu um arðsemi sem einnig er mikilvæg ef okkur á að takast að bjarga sparisjóðakerfinu. Því er hér opnað á mikið samstarf þeirra á milli.

Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir við þetta mikla samstarf út frá samkeppnissjónarmiðum en mat meiri hluta nefndarinnar er að slíkt séu óþarfaáhyggjur. Sparisjóðirnir eru litlir í bankakerfi okkar í dag og ekki ógn við stóru viðskiptabankana þrjá.

Það er ljóst að fram undan er mikilsverð endurskipulagning á öllu fjármálakerfinu og þar verður þá sérstaklega tekið á þeim atriðum sem Samkeppniseftirlitið ýjar að. Það er mat mitt að ímynd sparisjóðanna sé mjög sterk um þessar mundir og að í henni séu mikil verðmæti, þ.e. að í viðskiptavild sparisjóðanna í dag séu mikil verðmæti, og það þarf að taka tillit til þeirra verðmæta í endurskipulagningunni sem er fram undan. Mitt mat er að þeir geti gegnt miklu hlutverki við endurreisn bankakerfisins hér á landi og geti orðið góður valkostur við þá endurskipulagningu.

Hins vegar er ljóst að þetta eru óhagstæðar rekstrareiningar, þeir eru of litlir og of margir og það er tap af kjarnastarfsemi þeirra margra. Þess vegna þarf að leggja í breytingar á kerfinu. Ég held að sú vinna sem er fram undan af hálfu ráðuneytisins við endurskipulagningu og endurreisn sparisjóðakerfisins lúti að því.

Að lokum vil ég bara leggja áherslu á eftirfarandi:

Núverandi löggjöf hamlar aðkomu ríkisins og ríkið þarf að fá atkvæðavægi og styrk í samræmi við framlag sitt. Þetta sjónarmið kom strax fram í neyðarlögunum og hér erum við einungis að útfæra hvernig það er gert. Það er sanngirnissjónarmið að aðkoma ríkisins þarf að endurspegla raunvirði alveg eins og við viljum að ríkið nálgist aðra aðkomu sína að atvinnustarfsemi í landinu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru mörg stór fyrirtæki hér á landi komin með einum eða öðrum hætti, beinum eða óbeinum, í hendur ríkisins. Aðkoma ríkisins þarf að endurspegla raunvirði og þar á það sama að gilda um sparisjóðina í landinu og önnur fyrirtæki, hvort sem það eru fjármálafyrirtæki eða rekstrarfyrirtæki. Ég held að það sé einnig ljóst að ef við bregðumst ekki við hið fyrsta getur ríkið ekki komið sparisjóðakerfinu til bjargar.

Mig langar aftur að leggja á það áherslu að niðurfærsluheimildin í 7. gr. er fyrst og fremst heimild. Við töldum ekki rétt í meðförum nefndarinnar að setja einhvers konar ramma um það hvernig þessi niðurfærsla ætti að útfærast, einhvers konar reglustiku því að það er mjög erfitt að segja að hið sama eigi að ganga yfir alla sparisjóði. Ríkið þarf að skoða sína viðskiptalegu hagsmuni og aðrir aðilar munu koma að endurskipulagningu hvers sparisjóðs fyrir sig, það er mikilvægt að hafa í huga að staða hvers sparisjóðs fyrir sig sé skoðuð. Klippi sparisjóðurinn á samband við nærumhverfi sitt er ríkið að fórna mikilvægum viðskiptalegum hagsmunum og fórna verðmætum.

Heildarendurskoðun laga um fjármálafyrirtæki er á dagskrá í haust. Hér erum við að ráðast í björgunaraðgerðir. Fulltrúar ráðuneytanna sem í þessum björgunaraðgerðum standa lögðu síðast í morgun á það áherslu að þetta mál færi fljótt í gegnum þingið vegna þess að þau eru upp fyrir haus á hverjum einasta degi að taka á þessum vanda og þurfa að fá tæki til þess, eins og það var orðað á fundi nefndarinnar í morgun: Hver dagur minnkar möguleika einstakra sjóða á áframhaldandi starfsemi. Það er bráðavandi sem við þurfum að bregðast við og það strax.

Þær breytingar sem eru gerðar á þessu frumvarpi núna, og þá meina ég allar þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til í þessu nefndaráliti, lúta að björgunaraðgerðum sparisjóðanna sem eru mikilvægar. Fram undan er svo heildarendurskoðun á sparisjóðakerfinu, á lögum um fjármálafyrirtæki og þá munum við geta sérstaklega farið í það hvernig framtíð við viljum hafa í þessu sparisjóðakerfi.