137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er gríðarlega mikilvægt og getur haft miklar afleiðingar fyrir sparisjóðakerfið í landinu. Ég held að á margan hátt sé að renna upp örlagastund í sögu sparisjóðanna en því miður svarar þetta frumvarp ekki þeirri eðlilegu kröfu sem við hljótum að hafa uppi um það að frumvarp sem hefur þann yfirlýsta tilgang að koma sparisjóðunum til hjálpar uppfylli þá meginkröfu að skýra fyrir okkur hvernig við sjáum sparisjóðakerfið líta út á næstu vikum, hvað þá mánuðum eða missirum.

Sannleikurinn er sá að eins og aðrar fjármálastofnanir í landinu hafa sparisjóðirnir átt við mikinn rekstrarvanda að glíma. Fyrir því eru mjög margar ástæður. Því miður hefur margt misjafnt verið sagt um sparisjóðina og um ástæður fyrir því að sjóðirnir glíma nú við mikinn rekstrarvanda. Því hefur t.d. verið haldið fram að meginástæðan fyrir því að sparisjóðirnir eru í þessum vanda núna sé sú að þeir hafa tekið þátt í braski sem sé óskylt þeirri starfsemi sem sjóðirnir hafa staðið fyrir. Menn hafa t.d. vísað til þess að margir þessara sjóða hafa keypt í fyrirtækjum á borð við Existu og þar fram eftir götunum. Ég held að það sé nauðsynlegt að minna á söguna í þessum efnum.

Fyrirtækið Kaupþing varð til á sínum tíma ekki síst fyrir þeirra hluta sakir að þar komu sparisjóðirnir að málum. Það hentaði hagsmunum sparisjóðanna á þeim tíma að byggja upp starfsemi, fjármögnun og fjárfestingarstarfsemi í gegnum Kaupþing og því eru sögulegar ástæður fyrir því að sparisjóðirnir áttu mikil hlutabréf í Kaupþingi. Þegar breytingar urðu á eignarhaldi í kringum það varð niðurstaðan sú að þeir eignuðust hlutabréf í Existu, ekki vegna þess að þeir væru að braska heldur vegna þeirrar forsögu sem ég er að gera grein fyrir. Það er hluti af vanda sumra sparisjóðanna núna að Exista hefur hrunið og Kaupþing er fallið. Það hefur gert það að verkum að þegar þetta hrundi allt saman, þessi mikla borg, hrundi líka umtalsverður hluti af eigin fé margra þessara sparisjóða sem hafði blásið upp í góðærinu þegar menn mátu hlutabréfin hátt, auðvitað allt of hátt. Þetta hafði þessi áhrif á marga sparisjóði í landinu. Það var ekki afleiðing af braski, það var afleiðing af þessari sögu sem ég er að gera grein fyrir í mjög stuttu máli.

Hin ástæðan sem ég vil nefna í þessu sambandi er að ýmsum sparisjóðum, sérstaklega minni sparisjóðum úti á landsbyggðinni, sem í ýmsum tilvikum höfðu losað sig við þessi bréf í Existu og Kaupþingi á þeim tíma sem það var hagstætt að selja bréfin, tókst að styrkja eigið fé á þeim tíma. Hins vegar höfðu litlir sparisjóðir ekki burði til að afla sér erlends lánsfjár. Muna menn ekki að á undanförnum árum var mikil eftirspurn eftir því að fá erlent lánsfé frá fjármálastofnunum allt í kringum landið? Muna menn t.d. ekki að sjávarútvegurinn kallaði á erlent lánsfé? Það var honum hentugra og hagstæðara og það passaði auðvitað betur við tekjur minnstu útflutningsgreinanna. Þess vegna var eðlilegt og nauðsynlegt fyrir þessa sjóði að afla sér erlends lánsfjár, og hverjum getur dottið í hug að litlir sparisjóðir úti um landið hafi haft til þess burði eða afl að afla sér erlendra lána til að endurlána til fyrirtækja? Það gátu þeir að sjálfsögðu ekki. Þess vegna reiddu sparisjóðirnir sig á sinn eigin banka, Sparisjóðabankann sem seinna varð Icebank, til að afla þessa fjár.

Þegar Sparisjóðabankinn síðan féll fyrr á þessu ári — og raunar var þá sagt að nú væri lokið þeim hremmingum að fjármálastofnanir rúlluðu — gerðist það einfaldlega að eigið fé margra þessara sjóða minnkaði snarlega eða þurrkaðist hreinlega upp. Þetta var ekki afleiðing af braski. Þetta var afleiðing af aðstæðum sem þessir sjóðir réðu ekki við. Þess vegna vil ég segja strax að mér hefur fundist umræðan, ekki endilega hér í dag, um þessi mál á margan hátt ósanngjörn í garð sparisjóðanna. Þeir unnu einfaldlega í því umhverfi sem þeir urðu að gera til að geta sinnt þörfum viðskiptavina sinna allt í kringum landið.

Það hefur örlað á þeim misskilningi í umræðunni, kom m.a. fram í umræðunni í gær, að hluti af því sem við værum að fjalla um núna væri bein afleiðing af neyðarlögunum frá því í október. Það er alveg rétt. Neyðarlögin í október tóku til hagsmuna sparisjóðanna. Af hverju skyldi það hafa verið? Það var vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að þegar stóru bankarnir þrír voru að falla höfðum við fyrst og fremst á að skipa einni gerð af viðskiptabönkum í landinu, sparisjóðunum. Þess vegna varð það niðurstaða þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og raunar niðurstaða Alþingis að það yrði að reyna að slá skjaldborg um sparisjóðina og koma þeim til hjálpar með einhverjum hætti. Niðurstaða Alþingis á þeim tíma varð sú, sem var alveg hárrétt, að eina leiðin til þess væri að ríkisvaldið kæmi til skjalanna. Þess var ekki að vænta í því umhverfi sem við vorum komin í eftir fall bankanna í október að sparisjóðirnir gætu aflað sér annars fjár, t.d. með því að sækja það út á markaðinn, til stofnfjáreigenda, til sveitarfélaga eða annarra. Forsendan fyrir því að hægt væri að endurreisa og styrkja sparisjóðina að nýju í þessum mikla darraðardansi varð þess vegna sú að setja inn þessa heimild um 20 prósentin. Það var síðan útfært af þáverandi hæstv. settum fjármálaráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að það skyldi gert með því að skoðuð yrði eiginfjárstaða sparisjóðanna í lok árs 2007 og eiginfjárframlag ríkisins yrði miðað við það. Ástæðan var auðvitað sú að með þessum hætti var verið að reyna að tryggja að sem mest fé rynni til sparisjóðanna til að styrkja þá. Þar var hins vegar ekki gert ráð fyrir því að færa niður stofnféð vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því á þessum tíma að það væri til þess vinnandi að reyna að fara þessa leið til að efla sparisjóðina. Í raun og veru er þetta viðurkennt í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Miðað við gildandi löggjöf um sparisjóði er ekki talin vera fyrir hendi heimild til þess að lækka stofnfé og því er í frumvarpinu ákvæði sem veitir stjórn sparisjóðs heimild til þess.“

Einn yfirlýstur tilgangur þessa frumvarps er að reyna að búa til lagalega umgjörð til að hægt sé að lækka stofnféð með þeim rökum sem hv. þingmenn, talsmenn stjórnarflokkanna í þessum málum, hafa flutt í ræðum sínum í dag. Það er með öðrum orðum ekki ástæðulaust, ekki tilefnislaust, sem við ræðum þessa 7. gr. Hún er bókstaflega sett inn í frumvarpið til að afla heimildar til að lækka stofnféð í sparisjóðunum. Meðal annars út á það gengur frumvarpið, og ekki síst, og það er það sem veldur núna, má segja, óróleika, óvissu, hræðslu úti um landsins byggðir. Við sem erum fulltrúar þessara byggða þar sem sparisjóðirnir eru stórir og skipta miklu máli höfum orðið áþreifanlega vör við að þetta gerir það auðvitað að verkum að margir vita hreinlega ekki sitt rjúkandi ráð. Það er alveg ljóst mál að með því að stofnféð verður fært niður skapast í fyrsta lagi óvissa og í öðru lagi, ef allt gengur eftir sem horfir, mun það valda gríðarlega miklu tjóni í þessum byggðum.

Stundum rugla menn saman stofnfénu og hlutafénu og það hefur glögglega komið fram í þessari umræðu. Á því er alveg reginmunur. Það er að vísu alveg rétt að auðvitað bera hluthafar og stofnfjáreigendur ekki altæka ábyrgð á fyrirtækjum sem þeir eru hluthafar eða stofnfjáreigendur í. Að því leytinu er þetta rétt og að því leytinu er þetta sambærilegt. Hins vegar er í 65. gr. laganna um fjármálafyrirtæki kveðið á um það með hvaða hætti eigi að skoða stofnfé. Og þar er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Fari innlausn stofnfjárhlutar fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár.“

Stofnféð lýtur með öðrum orðum allt öðrum lögmálum en hlutabréf. Þegar hlutabréf eru seld ræðst verðið á markaðnum og markaðurinn tekur þá auðvitað tillit til framtíðarvæntinga fyrirtækisins og eigin fjár þess. Það er ekki þegar verið er að selja stofnféð í hinum almennu sparisjóðum. Þá er litið til þess hvert verðgildi stofnfjárins er með þeim hætti sem ég er að gera grein fyrir.

Sparisjóðirnir gegna lykilhlutverki úti um landsins byggðir. Úr fortíðinni eru mörg dæmi um það að viðskiptabankarnir hafa kært sig kollótta um að taka þátt í þeirri fjármögnun sem nauðsynleg er fyrir atvinnulíf og heimili úti á landi. Þá hafa sparisjóðirnir komið til skjalanna. Við munum öll dæmin um það hvernig bankarnir hafa sniðgengið litlu byggðirnar og ég gæti haldið langa ræðu um það hvernig þeir hafa hegðað sér í þeim efnum, bæði fyrr og síðar. Þess vegna hafa sparisjóðirnir gegnt miklu hlutverki og þess vegna hafa stofnfjáreigendur, oft af litlum efnum sínum, farið í það að reyna að efla sparisjóðina sína með því að borga inn aukið stofnfé til að takast á við verkefni sem eru nauðsynleg í byggðunum.

Ég skal taka dæmi um heimabyggðina mína þar sem ég þekki aðeins til. Þar var á sínum tíma ákveðið að auka stofnféð. Af hverju var það? Vegna þess að duglegir útgerðarmenn voru til staðar á svæðinu sem vildu efla sig, leituðu m.a. til sparisjóðsins síns, og til að hann gæti veitt þeim eðlilega lánafyrirgreiðslu svo hægt væri að byggja upp atvinnulífið þurfti að auka stofnféð. Og menn gengu í það.

Það eru líka til dæmi um að litlir sparisjóðir hafi sameinast þeim stóru. Menn hafa ýmsar skoðanir á því núna eftir á en þá var staðan auðvitað sú að menn vildu líka tryggja að staða þeirra innan þessara nýju stóru eininga væri viðunandi. Þegar þessar sameiningar fóru fram var horft til verðmætis stofnfjárins og þess vegna gripu menn til þess ráðs, t.d. í Húnaþingi í Vestur-Húnavatnssýslu, og á Vestfjörðum þegar í hlut átti Sparisjóður Vestfirðinga, að auka stofnféð til að tryggja að þeirra rödd heyrðist sterkar inni í hinni nýju sameinuðu einingu. Þess vegna fóru m.a. sveitarfélögin, bæði á Vestfjörðum og í Húnaþingi, í það að leggja aukið fé í sparisjóðinn til að tryggja að hagsmunir þeirra yrðu ekki fyrir borð bornir. Nú er hins vegar sagt sem svo: Það er heldur slæmt að þið gerðuð þetta, nú verðið þið bara að lúta því eins og hver annar hluthafi að stofnféð verði fært niður.

Ég er svo gamall að ég man vel eftir mörgum atlögum að sparisjóðakerfinu á þinginu. Menn töluðu um að nauðsynlegt væri að ná utan um þetta fé sem væri án hirðis og menn horfðu til þess að eigið fé var orðið uppblásið í ýmsum sjóðum og væri orðið langt umfram það sem stofnféð var. Þess vegna varð til sú hugmynd að opna á hlutafjárvæðingu þeirra sparisjóða sem það kusu. Ég var ekki hrifinn af þeirri hugmynd. Það var hins vegar niðurstaðan, en breytir ekki því að það tókst að verja sparisjóðakerfið í heild sinni. Sparisjóðirnir hafa starfað sem öflugar einingar æ síðan. Þrátt fyrir að ég viti að það er hvorki yfirlýstur tilgangur frumvarpsins né vilji þeirra sem að þessu standa óttast ég mjög að með þeim breytingum sem boðaðar eru í þessu frumvarpi, og breytingartillögur meiri hlutans taka því miður ekki á, sé vegið að sjálfum rótum sparisjóðakerfisins sem er stofnféð. Stofnfé er ekki hlutafé, stofnfé hefur sína sérstöðu og það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á þessu.

Hvaða afleiðingar kann þetta að hafa? Þær eru margvíslegar. Ég hef þegar rakið t.d. stöðu sveitarfélaganna. Það væri fróðlegt að heyra hvort ráðherra sveitarstjórnarmála, hæstv. samgönguráðherra, hafi ekki af því áhyggjur hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir sveitarfélögin ef niðurstaðan verður sú sem allt bendir til og blasir við, að stofnféð verði fært umtalsvert niður í mörgum sparisjóðum. Það þarf ekki að hafa orð um afleiðingarnar fyrir einstaklinga. Á fundi þingmanna Norðvesturkjördæmis úr Húnaþingi vestra í Vestur-Húnavatnssýslu heyrðum við dæmi um að heimili skulduðu allt að 120 millj. vegna stofnfjár í sparisjóðum sem til var komið af ástæðum sem ég hef þegar rakið.

Alvarlegast af öllu að mínu mati er hins vegar að þetta kann að hafa mjög vondar afleiðingar fyrir framtíðina. Menn segja sem svo: Þetta er heimildargrein. En hvaða möguleika hafa menn til að taka ákvarðanir í þessari stöðu þegar eigið fé sparisjóðanna er komið langt niður fyrir 12% og fer að nálgast núllið þegar menn standa frammi fyrir því að eiga kannski einn valkost sem er sá að færa niður stofnféð gegn því að geta fengið aðkomu ríkisvaldsins? Ætla menn að segja að þetta sé eitthvert frjálst val? Auðvitað er það ekki frjálst val. Menn hafa engan annan kost en að segja já og þá verða menn að lúta því að stofnféð verði fært niður.

Ég heyri á þingmönnum sem hér hafa talað að það er ríkjandi velvilji í garð sparisjóðanna. Þess vegna heiti ég á menn að fara aðeins betur yfir þessi mál. Ég trúi því að það sé einlægur vilji þingmanna sem hér hafa talað og ráðherra sem hefur um málið að segja að vilja verja sparisjóðakerfið en það verður ekki gert með því móti sem hér er lagt til. Veltum fyrir okkur einfaldri spurningu: Hverjir eru líklegir til að koma með fjármuni til að leggja í litlu sparisjóðina úti um landsins byggðir? Jú, það er ríkið. Það hefur heimildina í neyðarlögunum. Og síðan hver? Ætli það sé hinn almenni fjárfestir í landinu sem bíður nú spenntur eftir því að fá að kaupa í þessum sjóðum? Auðvitað ekki. Það er kannski von til þess að hægt verði að fá heimamenn til að hjálpa til, kannski einhverja örfáa viðskiptavini o.s.frv. En ég segi það, og segi það að gefnu tilefni og af samtölum við stofnfjáreigendur upp á síðkastið, að það er ekki líklegt að þeir aðilar muni fara í að leggja fjármuni inn í sparisjóðina eftir að hafa verið sviðnir með því að stofnféð sé fært niður.

Menn tala um að örugglega verði gengið varlega til verka í þessum efnum. Á sama tíma er hins vegar talað um að það sé ákaflega mikilvægt að sú heimild sé til staðar að færa niður stofnféð, ríkisvaldið þurfi að hafa það sem forsendu að áður en það leggi peningana inn í þessa sjóði sé stofnféð fært niður við tilteknar aðstæður. Það er talað um að færa niður stofnféð að raunvirði. Hvað þýðir það? Hvað þýðir þetta bókstaflega? Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Þetta hlýtur að þýða að það er tekið tillit til þess hversu mikið búið er að færa niður eigið fé í sparisjóðunum. Ég rakti áðan að það hefur lækkað gríðarlega mikið, og lækkaði mikið á árinu 2008 af ástæðum sem ég rakti. Ég veit líka að það mat á sparisjóðunum sem Fjármálaeftirlitið gerir mun hafa í för með sér enn þá frekari lækkun á eigin fé þeirra vegna þess að menn eru að nálgast þessi mál af gríðarlegri varúð sem er kannski ekki að undra í þeirri stöðu sem við erum með allt efnahags- og viðskiptalífið í landinu í þar sem eignir eru lítils metnar. Hið alvarlega í þessu máli er að við munum sjá mörg dæmi um að sparisjóðir sem höfðu kannski jákvætt eigið fé um áramótin horfi upp á það fjúka í stórum stíl. Þá vaknar óhjákvæmilega spurningin sem ég óttast að bara eitt svar sé við, spurningin um það hversu mikið þurfi að færa niður stofnféð þannig að það sé að raunvirði, eins og hér hefur verið komist að orði, og er raunar talað um í nefndaráliti meiri hlutans.

Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að þessi leið er því miður ekki líkleg til að laða nýja fjárfesta að því að byggja upp sparisjóðina þó að ég heyri að það sé yfirlýstur tilgangur og vilji þeirra sem hafa talað fyrir þessu máli. Þetta er ekki leiðin til þess. Ég er stofnfjáreigandi í einum litlum sparisjóði. Ég á þar 0,25% af heildarstofnfé sjóðsins. Kannski gerir það mig algerlega vanhæfan til að tala með þessum hætti. Mín vegna má þurrka það fé út. Ég hef ekki persónulegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málinu, en ég óttast sem íbúi á dreifbýlissvæði sem hefur séð hvernig sparisjóðirnir hafa komið til bjargar á erfiðum tímum að sú leið sem við erum hér að fara muni vinna gegn yfirlýstum tilgangi. Þess vegna tala ég gegn þessu. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það væri t.d. til bóta ef inn í þetta frumvarp kæmi ákvæði, og yrði þar með lögfest, sem fæli það í sér að stofnféð væri ekki fært meira niður en svo að það væri alltaf sem svaraði nafnvirðinu. Þá væri varðveitt hin gamla sparisjóðshugsjón og þá væri hægt að taka á því sem ég þykist vita að menn vilji garnan taka á sem eru sparisjóðir þar sem menn hafa blásið upp eigið fé og þar sem menn hafa reynt síðan að færa það í verðmæti inn í stofnféð. Það á hins vegar ekki við um litlu sparisjóðina í landinu.

Virðulegi forseti. Hv. framsögumaður meirihlutaálitsins vék í ræðu sinni áðan að kröfum vegna svokallaðra endurhverfra viðskipta sparisjóðanna og ræddi um það sem möguleika að þessum endurhverfu lánum yrði breytt í stofnfé eða víkjandi lán. Ég tók eftir því og tel að það hafi skipt miklu máli. Hann ræddi í því sambandi sérstaklega um, ég hygg að ég hafi tekið þar rétt eftir, að fara mætti með það með svipuðum hætti og gert var með Verðbréfasjóðinn og Sögu Capital. Í þessu sambandi spyr ég þess vegna — og hefði verið gott að hafa hæstv. ráðherra hérna — hvort ekki mætti þá hugsa sér að með sama hætti yrði farið með þau lán sem núna standa á sparisjóðunum vegna falls Icesave og Sparisjóðabankans. Það er mjög mikilvægt að það sé skoðað sérstaklega vegna þess að þar með væri hægt að ná sams konar árangri. (Forseti hringir.) Þetta kom ekki fram í máli þingmannsins. Þetta hefur ekki komið fram áður, þetta gæti hins vegar skipt miklu máli og ég spyr hv. þingmann (Forseti hringir.) sem væntanlega tekur til máls síðar í umræðunni hvort þetta gæti ekki verið lausn eða a.m.k. leið til að lina sárustu þjáningarnar fyrir sparisjóðina og stofnfjáreigendurna.