137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson muni ekki styðja það lagafrumvarp sem hér er til umræðu og þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur fært fram. Eins og ég sagði áðan er þetta sú leið sem Samband íslenskra sparisjóða hefur m.a. bent á að þurfi að fara til þess að unnt verði að koma þeim sparisjóðum sem unnt verður að bjarga út úr þeim vanda sem þeir eru í.

Það er alveg ljóst að það er ekkert víst að hægt verði að bjarga þeim öllum. Það er viðurkennt og það er staðreynd og við höfum fjallað um það í dag að það er mjög mikill munur á stöðu sparisjóðanna, þar með stöðu stofnfjárins og stofnfjáreigenda.

Eitt af því sem ég vildi gera athugasemdir við eða veita andsvör við hjá þingmanninum voru orð hans um hvers eðlis stofnfé er miðað við hlutafé. Það er alveg skýrt í mínum huga að í 63. gr. laganna um fjármálafyrirtæki og um sparisjóði segir skýrum orðum að stofnfjáreigendur beri ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs svo nemur stofnfé þeirra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stofnfjáreigendur bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt.“

Þeir bera sem sé ábyrgð með stofnfénu á skuldbindingum sjóðsins. Þetta er nákvæmlega það sama og gildir um hlutafé. Hluthafar, þeir sem eiga hlutafé, bera ábyrgð á skuldbindingum hlutafélagsins svo nemur hlutafénu, svo nemur hlutnum. Það er ekki hægt að lesa 2. gr. neyðarlaganna öðruvísi þar sem skýrt er tekið fram að einu gildi að þessu leyti um aðkomu ríkisins um hlutafélagasparisjóði og stofnfjársparisjóði. Þetta er mergurinn málsins.