137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig gott að heyra að það er jákvæður vilji í garð sparisjóðanna og það hefur maður fundið auðvitað og það er ekki nýtt í þessari umræðu þegar við höfum verið að takast á um hagsmuni sparisjóðanna. Þegar atlaga hefur verið gerð að sparisjóðunum úr ræðustóli Alþingis og með tillöguflutningi þá hefur ævinlega verið brugðist hart við.

Ég vil hins vegar segja það og ég vona að ég vitni rétt í séra Hallgrím: Góð meining enga gerir stoð. Það er einfaldlega þannig að þó að menn hafi fullan og góðan vilja til að takast á við málin í öðru orðinu en leggi síðan forsendurnar upp með þeim hætti að niðurstaðan verður nokkuð fyrirsjáanleg, þá er það svo að það á ekki bara við um mig heldur við um þær þúsundir stofnfjáreigenda úti um allt land sem núna eru mjög uggandi um sinn hag og um hag sparisjóðs síns.

Ég sagðist samt sem áður þrátt fyrir að afleiðingarnar gætu verið vondar fyrir sveitarfélögin, afleiðingarnar gætu verið vondar fyrir einstaklingana þá hafði ég meiri áhyggjur af því að þetta hafi þær afleiðingar í för með sér að okkur muni ekki takast það sem er nauðsynlegt, þ.e. að fá viðbótarfjármagn inn í sparisjóðina, viðbót við það fé sem ríkissjóður vill leggja fram.

Það jákvæðasta sem ég get þó fundið út úr andsvari hv. þm. Magnúsar Orra Schrams er að hann sagði að hugmyndin sem ég nefndi um víkjandi lánin væri til skoðunar. Þetta er afar mikilvægt vegna þess að framsögumaður nefndarinnar talaði sérstaklega um tiltekna gerð af lánum, hin endurhverfu lán, þeim mætti breyta í víkjandi lán eða stofnfé og reisa þannig upp eigin fé sjóðanna og koma CAD-hlutfallinu upp í viðunandi horf. Ef þetta sama getur átt við um þau lán sem núna hvíla inni í Seðlabankanum og voru í eigu sparisjóðabankans og eru kröfur á litlu sparisjóðina úti um landið þá mun það geta gerbreytt stöðunni í mörgum sparisjóðum. Þess vegna höfða ég til stjórnarmeirihlutans sem lýsir jákvæðri afstöðu sinni til sparisjóðanna, að vinna að þessum málum (Forseti hringir.) með þeim hætti og það mun þá auðvitað verða mjög til að bæta ástandið í sjóðunum og hjá stofnfjáreigendunum.