137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir ræðu hennar. En ég hlýt að koma í andsvör við hana og ítreka að þetta frumvarp og þær breytingartillögur sem við — meiri hlutinn — höfum kynnt er einmitt til þess fallið og til þess ætlað að styrkja möguleika sparisjóðanna, til dæmis Sparisjóðs Keflavíkur sem hún nefndi, til að geta reist sig við og viðhaldið þeirri grunnþjónustu sem sparisjóðurinn hefur við íbúa ekki aðeins í sveitarfélögunum hérna fyrir sunnan okkur heldur líka norðan heiða og tryggt starf þeirra hundruða sem starfa við sparisjóðina.

Ég hlýt að spyrja um afstöðu hv. þingmanns til frumvarpsins. Hyggst hv. þingmaður styðja þetta frumvarp eða ekki? Það kemur ekki fram í nefndaráliti minni hlutans hver afstaðan til málsins sé, einungis að það þurfi meiri tíma og það eigi að huga að sérstökum björgunaraðgerðum en ekki öðrum. Af því tilefni hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hvaða atriði eru það, hvaða greinar eru það í þessu litla frumvarpi, sem er ekki mjög langt eða mjög flókið, hvaða greinar eru það nákvæmlega sem hv. þingmaður telur að lúti ekki að björgun sparisjóðanna?