137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:09]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem lúta að sparisjóðum. Í frumvarpinu er ákvæði um félagaform staðfest svo og samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna. Þá er þeim gert heimilt að eiga samstarf um ýmis verkefni þeim til hagræðingar sem er þeim mjög mikilvægt.

7. gr. frumvarpsins sem kveður á um heimild til lækkunar stofnfjár er umdeildust þar sem hún getur komið mjög illa við stofnfjáreigendur vítt og breitt um landið sem hafa upp á síðkastið jafnvel verið að skuldsetja sig mikið til að auka stofnfé sitt, sjálfum sér og samfélaginu til heilla. Ljóst er að sameining sparisjóða hefur tekið á sig þá mynd að krafist hefur verið mikillar aukningar stofnfjár til að jafnræði stofnfjáreigenda sé tryggt og þar eru jafnvel dæmi um hundraðfaldar aukningar.

Við gjaldfellingu þessara skuldbindinga sem menn ætluðu að greiða með arði af þeim, sem nú er að engu orðinn, geta komið upp erfið samfélagsleg mál sem allir nefndarmenn hafa mikinn skilning á og þess vegna er afar mikilvægt að í nefndaráliti meiri hlutans er sagt, með leyfi forseta:

„Aðstæður sparisjóða eru ólíkar og því verður að meta hvert tilvik fyrir sig þegar tekin er ákvörðun um niðurfærslu. Má vænta þess að stjórn sparisjóðs leggi ekki til lækkun á stofnfé nema önnur úrræði séu ekki fyrir hendi til að jafna tap af rekstri.“

Sparisjóðir eru sögulega séð fyrst og fremst fjármálastofnanir minni byggðarlaga sem áttu ekki sama aðgang að fjármagni og hin stærri. Fólkið í byggðarlaginu lagði fé sitt í sjóðinn, svokallað stofnfé, og sló tvær flugur í einu höggi, ávaxtaði fé sitt og studdi við fólk og fyrirtæki heima fyrir. Þá var sparisjóðurinn gjarnan helsti styrktaraðili æskulýðs- og menningarstarfsemi. Niðurfærsla stofnfjár stofnfjáreigenda hlýtur aftur á móti að teljast eðlileg þegar nýtt stofnfé ríkisins kemur inn í sjóðina til að mæta tapi og neikvæðu eigin fé. Ekki er verið að tala um að niðurfæra stofnféð ætíð niður í núll. Vonandi verða þessar aðgerðir til þess að hægt verði að bjarga sjóðunum og þannig hægt að taka til við hið góða starf þeirra á ný, fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Í raun má segja að sparisjóður og sparisjóður sé ekki það sama og því ákveðið misvægi hvernig lög þessi koma niður en í landinu ríkja að sjálfsögðu ein lög um hvert mál. Með fyrrnefndu ákvæði er reynt að koma til móts við ólíkar aðstæður sparisjóða, við fjölbreytileikann. Gleymum ekki hvert hið eiginlega markmið laganna er, að vinna að endurreisn sparisjóðakerfisins svo vænlegt þyki að gerast stofnfjáreigandi sparisjóða og samfélagslegt og byggðalegt starf sparisjóðanna viðhaldist og varðveitist.