137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er margt sem hæstv. ráðherra Jón Bjarnason hefur sagt um sparisjóðina og mjög margt sem ég er sammála. En ég ætla kannski að fá að leyfa mér í svari að vitna í skilgreiningu hans á því varðandi muninn á stofnfjárhöfum og hluthöfum, með leyfi forseta:

„Stofnfjárhafar sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfssvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er því að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin persónulegar arðgreiðslur. Hins vegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Á því er grundvallarmunur.“

Það er eitthvað sem ég hef verið alveg geysilega ósátt við að það hefur ítrekað komið fram í dag í orðum hæstv. viðskiptaráðherra, líka í túlkun fulltrúa viðskiptaráðuneytisins að það er alltaf verið að vísa í lög um hlutafélög en það er grundvallarmunur á bak við hugmyndafræðina að sparisjóðum og hugmyndafræðina að baki hlutafélögum. Ég get engan veginn tekið undir það að stofnfjáreigendur, sem meira að segja fengu þegar þeir tóku þátt í stofnfjáraukningum, var bent á þetta ákvæði í lögunum að það væri ekki heimilt að skrifa niður stofnfé og tóku ákvörðun þess vegna, að þetta sé að einhverju leyti sambærilegt við hvernig hlutafé er meðhöndlað. Þeir gerðu sér hins vegar fyllilega grein fyrir því að ef sparisjóðurinn færi á hausinn, yrði gjaldþrota, þá mundu þeir tapa stofnfé sínu en hérna erum við að tala um að ríkið er að nota styrk sinn til að tryggja sem best sína eigin afkomu að því að koma þarna inn, tryggja stjórn að sjóðunum og tryggja aðkomuna að arðinum. Það komu fram aðrar hugmyndir við vinnu þessa frumvarps um hvernig væri hugsanlega hægt að koma til móts við stofnfjáreigendur og að það væri engan veginn hægt að fá meiri hlutann til að taka undir þær hugmyndir.