137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur verið, held ég að megi segja, afskaplega málefnaleg og góð og ég held að í þessu máli eins og í öðrum, höfum við sýnt stjórnarmeirihlutanum afskaplega mikla tillitssemi og það er kannski spurning um hvort það sé rétt. En þegar maður þarf síðan að sitja undir því hér að þau málefnalegu sjónarmið sem við komum með fram séu ósk um biðstöðu, þegar við í minni hlutanum í nefndinni erum svo sannarlega búin að vera að ýta á eftir störfum nefndarinnar á hinum ýmsu sviðum og það er orðið þjóðþekkt, þá er það algjörlega óþolandi, virðulegi forseti.

Hvað eftir annað, í hverri einustu ræðu, hverju einasta andsvari höfum við verið tilbúin til þess að hjálpa til og liðka, jafnvel þó að hratt væri, fyrir öllu því sem sneri að framkvæmd neyðarlaganna, öllu. En þegar kemur að því þarfa verki að skapa umgjörð fyrir sparisjóðina vildum við vanda til verksins, virðulegi forseti, og þar skilur á milli.

Hér kom nefnilega fram það nokkuð sem við höfum haft áhyggjur af, en kom frekar skýrt fram, ég veit ekki hvort hv. þingmaður hafði kannski ekki ætlað sér að segja það sem hv. þingmaður sagði. Hér kom fram að það væri nú ekki brýnasta málið hjá þessari ríkisstjórn að skapa einhverja eigendastefnu — hjá þessari ríkisstjórn.

Ef þær áhyggjur sem menn hafa haft varðandi pólitísk markmið með því að ríkisvæða sparisjóðina hafa farið fram hjá hv. þingmanni þá var hv. þingmaður að undirstrika það í þessari ræðu.