137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er bara mitt mat eftir að hafa rennt yfir nefndarálit minni hlutans að þar sé ekki að finna beinar tillögur, það er ekki að finna upplýsingar um hvort hv. þingmenn sem undir það rita ætli að styðja frumvarpið eða ekki. (Gripið fram í.) Þar eru í rauninni einungis settar fram það sem ég kallaði óskir um biðstöðu, það er bara mitt mat.

Ég verð hins vegar að segja að það er algerlega rangt að hafa það hér eftir mér að ég hafi sagt að það væri ekki brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að búa til eigendastefnu fyrir bankana. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, það sem ég sagði var að það væri ekki svo að brýnasta verkefnið sem ríkisstjórnin stæði frammi fyrir núna væri hvernig ríkið ætti að fara út úr þessum fjármálastofnunum sem það hefur fengið í fangið. Vegna hvers? Vegna þess sem ég sagði líka, að það er ekki eins og fjárfestar eða kaupendur standi í röðum til þess að kaupa hlut ríkisins í þessum stofnunum. Þess vegna er mikilvægara að virkja þær heimildir sem eru í lögum til þess að ríkið geti komið að björgun sparisjóðanna heldur en það að huga að því hvernig eigi að selja þá hluti. Enda ef við bíðum nógu lengi er ekki víst að þeir verði til staðar þegar yfir lýkur.