137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[21:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem skilur á milli sjónarmiða minna og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur er það að ég tel einfaldlega að það frumvarp sem hér er til umræðu vinni gegn yfirlýstu markmiði sínu sem er að reyna að koma sparisjóðunum til bjargar. Sérstaklega á þetta við um 7. gr. Ég á hins vegar ekki von á því að mér takist það í þessu örstutta andsvari að fá hv. þingmann til að skipta um skoðun. Ég hef verið að reyna það í ræðum áðan. En ég lagði fram í umræðuna ákveðna hugmynd og það gerði ég að mjög gefnu tilefni. Tilefnið var það að hv. þingmaður setti fram útfærða hugmynd sína um það með hvaða hætti mætti nýta hin svokölluðu endurhverfu lán til tiltekinna sparisjóða til að styrkja eiginfjárstöðu þeirra og koma þeim þannig til hjálpar. Ég spurði þess vegna hv. þingmann að gefnu tilefni hvort ekki væri skynsamlegt að beita nákvæmlega sömu aðferðum varðandi önnur lán sem ríkið hefði í fórum sínum vegna falls Sparisjóðabankans og nota þau lán með sama hætti til að styrkja eiginfjárstöðu sparisjóðanna sem ættu þessar kröfur á sig.

Nú vill svo til að ég hygg að þau lán sem ég er að vísa til séu einkanlega lán sem voru veitt í gegnum Sparisjóðabankann til hinna minni sparisjóða og þess vegna er alveg ljóst að aðgerð af þessu taginu gæti styrkt mjög stoðir litlu sparisjóðanna og mögulega komið í veg fyrir að að grípa þyrfti til þess að lækka stofnféð í þessum sjóðum. Sérstaklega ef farin yrði sú leið sem hv. þingmaður útfærði svo mjög varðandi endurhverfu lánin og vísaði þá sérstaklega til þess hvernig farið var með fjárhagsstuðning ríkisins til Sögu Capital og VBS. Ég vil þess vegna ítreka að þessi mál verði tekin til meðhöndlunar alveg sérstaklega vegna 2. og 3. umr. málsins þegar málið kemur til viðskiptanefndar sem hv. þingmaður Álfheiður Ingadóttir er formaður fyrir vegna þess að hér gæti verið um að ræða mál sem gæti skipt mjög miklu máli og gæti komið til móts við þau sjónarmið sem ég hef sett fram og kannski að einhverju leyti leyst úr þeim ágreiningi (Forseti hringir.) sem er okkar á milli.