137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[10:44]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra um þau áform sem nú eru uppi í vegamálum. Um árabil hefur tvöföldun Suðurlandsvegar verið forgangsverkefni með fullum rökum vegna mikils umferðarþunga, margra hættulegra staða, margra slysa og þar á meðal dauðaslysa. Komið var að því að ganga til verka. Fyrsti áfangi af þeim fjórum sem um er að ræða í tvöföldun vegarins frá Reykjavík til Selfoss var tilbúinn og þá slær í bakseglin eftir því sem skilja má hæstv. samgönguráðherra. Það er eitthvert los á málinu og því er ástæða til að biðja hæstv. ráðherra að skerpa á því hvað er í vændum, hvaða tímasetningar um er að ræða og hvaða rök fyrir eru fyrir einhverju öðru ef breyting er ætluð í þessum efnum. Það þýðir ekkert að skjóta sér á bak við vinnu embættismanna eða starfsmanna, ráðherra hefur það í hendi sér að stýra þessu eins og skipstjóri á að gera á skútunni og þess vegna verður að krefjast þess af hinum mæta samgönguráðherra og skelegga þingmanni til margra ára að svara nú hispurslaust.