137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[10:46]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að taka þetta upp og fyrir ánægjulegan fund sem við áttum í gær í samgönguráðuneytinu með fulltrúum Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og þeim þingmönnum úr kjördæminu sem þar komu. Þar var farið yfir mál varðandi Suðurlandsveginn. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði, fyrsti kaflinn, sem átti að vera frá eins og það heitir Draugahlíðarbrekku að Fossvöllum, átti að fara í útboð á árinu 2009, 6–7 km kafli sem er tilbúinn til útboðs eða var að verða tilbúinn til útboðs skulum við segja, þegar það kom upp að framlög til vegamála á þessu ári eru skorin niður um 3,5 milljarða vegna ástands í ríkisfjármálum sem ekki þarf að rifja upp í þessum ræðustól.

Það breytti auðvitað mjög miklu þeim útboðsáformum sem voru hjá Vegagerðinni en ekki hefur verið hætt við nokkurn skapaðan hlut heldur kemur bil núna um hásumarið þar sem ekki verða útboð. Hvenær útboð hefjast á ný getum við ekki sagt til um, það fer eftir því hvernig málum vindur fram við þau verk sem eru í gangi þannig að Vegagerðin eigi peninga fyrir þeim verkum sem eru í gangi núna og þær skuldbindingar sem hún hefur tekist á hendur.

Hitt atriðið varðandi þau einkaframkvæmdarverk sem mikið hefur verið rætt um þá er í minnisblaði sem fylgdi stöðugleikasáttmálanum rætt um nokkur verk sem hægt væri að fara í einkaframkvæmd með eins og það heitir þar. Þar er talað um sjúkrahús, Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Suðurlandsveg, bæði fyrsta og annan áfanga, Sundabraut, fyrsta og annan áfanga, Vesturlandsveg, tvöföldun á Kjalarnesi, og ýmis fleiri verkefni.

Eins og kom fram á fundi í gær hefur hæstv. fjármálaráðherra skipað nefnd sem á að fara í gegnum þetta. Nefndin er skipuð fulltrúum ýmissa ráðuneyta og Samtökum atvinnulífsins. Ég hef sagt það, virðulegi forseti, og skal endurtaka það hér að ég vona svo innilega að lífeyrissjóðirnir komi með peninga til samgönguframkvæmda til að gefa í á móti því sem skera þarf niður af hefðbundinni (Forseti hringir.) ríkisframkvæmd og þá er Suðurlandsvegur að sjálfsögðu eitt af þeim forgangsverkum sem þar þarf að fara í út af því sem hv. þingmaður nefndi, þar er mesta umferðin (Forseti hringir.) og mesta slysatíðnin.