137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ættleiðingar.

[10:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Um tæplega þriggja áratuga skeið hefur félagið Íslensk ættleiðing eitt haft löggildingu og milligöngu um ættleiðingar erlendra barna til Íslands en nú varð sá gleðilegi atburður í júní að nýtt félag, Alþjóðleg ættleiðing, fékk löggildingu ráðuneytis og það er vel.

Eins og mönnum kann að vera kunnugt um eru mörg hjón, mörg pör á biðlista og hafa verið lengi. Mér skilst að u.þ.b. 120 hjón hafi beðið í u.þ.b. fjögur ár frá því að forsamþykki var veitt eftir því að geta eignast barn. Þessi tími hefur verið að dragast úr hömlu, hann var u.þ.b. tvö ár í byrjun þessa áratugar, hann er að verða 4–5 ár. Fyrir því eru auðvitað margvíslegar ástæður, bæði hérlendis og erlendis, og ekki tími til að fara ofan í þær í svona stuttri fyrirspurn. En mig langar til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún telji ekki þörf til þess, í ljósi þess hve biðtíminn hefur lengst og hversu margir væntanlegir foreldrar þurfa að bíða nú missirum og árum saman eftir börnunum sínum, að hnika til þeim aldurstakmörkum sem sett hafa verið og ég hygg að séu í reglugerð sem ráðherra setur, þannig að eftir þessa löngu bið lendi fólk þá ekki líka í þeirri sorg að geta ekki eignast barnið sitt vegna þess að það er komið yfir 45 ára aldurinn, kannski um einhverja mánuði eða ár, þar sem ég held þegar á allt er litið, gæfu barnanna og foreldranna, að skipti mestu máli að þau nái saman en ekki eitthvert árabil eða mánaðabil (Forseti hringir.) í aldri.