137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ættleiðingar.

[10:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og tækifærið til að ræða þessi mál í sölum Alþingis. Það er svo að samkvæmt reglugerð er aldurstakmark til að sækja um ættleiðingu 45 ár. Þetta miðast í sjálfu sér við barneignaraldur eftir því sem næst verður komist þegar skoðaðar eru forsendur þess að þetta árabil er valið.

Þannig stendur á að forsamþykki til ættleiðingar getur gilt í allt að fjögur ár þannig að þeir sem sækja um ættleiðingu geta þá verið allt að 49 ára þegar ættleiðing gengur í gildi. Ég hef sagt að ég hafi verið frekar treg til að endurskoða þetta 45 ára aldurstakmark.

Hins vegar finnst mér ástæða til að skoða hvort það séu einhverjar leiðir til að athuga gildistíma forsamþykkis vegna þeirra sem sækja um ættleiðingu og eru svo óheppnir að forsamþykkið rennur út rétt eftir að þeir verða 45 ára en svo eru aðrir sem geta sótt um forsamþykki rétt áður en þeir verða 45 ára. Þetta finnst mér vera atriði sem má skoða betur, hvort hægt sé að breyta gildistíma forsamþykkis.