137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að greiða atkvæði um mjög stórt mál sem snýr að sparisjóðunum í landinu. Í örstuttu máli hefur málið lagast í meðförum nefndarinnar. Minni hlutinn hefur lagt á það áherslu að hjálpa við að ganga þannig frá málum að mögulegt sé að framkvæma þann þátt neyðarlaganna sem snýr að aðstoð við sparisjóðina sem fyrst. Minni hlutinn hefur hins vegar hafnað því að vinna á þessum gríðarlega hraða við almenna löggjöf eða heildarlöggjöf um sparisjóðina enda er sú löggjöf sem komin er fram mjög vanbúin og allar líkur á því að við fáum málið mjög fljótt aftur til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Það hefur líka komið fram og kom einnig fram í umræðum í gær hver raunveruleg stefna ríkisstjórnarflokkanna er í þessu máli. Hún er sú að ríkisvæða sparisjóðina og halda ríkinu þar inni. Ríkisvæddir sparisjóðir eru ekki sparisjóðir eins og við þekkjum þá og það kom hreint og klárt fram í umræðum í gær að það er ætlun ríkisstjórnarflokkanna. Við munum greiða atkvæði gegn 7. gr. frumvarpsins vegna þess.