137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég hef alltaf talið að styrkur sparisjóðanna hafi legið í góðum tengslum við heimasvæði þeirra og það er erfitt að sjá fyrir sér sparisjóð án aðkomu heimamanna. Með þeim aðgerðum sem verið er að leggja til og með aðkomu ríkissjóðs gætum við staðið frammi fyrri því að vera með ríkissparisjóði hringinn í kringum landið og að ríkið muni skipa alla stjórnarmenn í sparisjóðina miðað við það sem lagt er til. Því legg ég til ákveðna breytingu á því hvernig stjórn sparisjóðanna skuli skipuð, þar sitji fulltrúar stofnfjáreigenda, hlutaðeigandi sveitarstjórna eða héraðsnefnda og innstæðueigendur. Í stjórn sparisjóðs með fleiri en 15 starfsmenn skulu starfsmenn kjósa einn fulltrúa í stjórn sjóðsins, sem er nokkuð sem ég mundi halda að ætti að hugnast vinstri grænum og jafnaðarmönnum vel. Ég veit ekki betur en þetta ákvæði sé alla vega í samþykktum landsfundar Vinstri grænna og ég veit að jafnaðarmenn t.d. í Svíþjóð hafa verið mjög fylgjandi því að starfsmenn hafi fulltrúa í stjórn. Ég hvet því fulltrúa (Forseti hringir.) þessara þingflokka eindregið til að segja já.