137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er sá að styrkja sparisjóðina. Megingalli við frumvarpið er hins vegar sá að það vinnur gegn þeim markmiðum. Þetta á sérstaklega við um 7. gr. þessa frumvarps sem mun skaða sveitarfélögin í landinu, mun stórskaða þúsundir stofnfjáreigenda í landinu og mun vinna gegn því að fá stofnfjáreigendur, á landsbyggðinni sérstaklega, til að taka þátt í þeirri mikilvægu endurreisn sem þarf að eiga sér stað í sparisjóðakerfinu.

Því miður virðist allt benda til þess að þetta verði raunin, það kom líka fram í umræðum í gær að þessu ákvæði verður beitt af mikilli hörku og það er alveg ljóst mál að verði þetta niðurstaða þingsins þá mun það gerast að stofnfé verður fært niður í miklum mæli í mörgum sparisjóðum sem mun síðan leiða til þess að endurreisn þeirra verði erfiðari en ella. Þetta er undarlegt frumvarp sem hefur þann tilgang að styrkja sparisjóðina en vinnur gegn sínum eigin markmiðum.