137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér tökum við til endanlegrar afgreiðslu 7. gr. sem réttilega hefur verið sögð ein aðalgreinin í þessum breytingum og er tilefni til þess að hér er verið að setja lög til bjargar sparisjóðunum. Ég vil um leið og ég geri grein fyrir atkvæði mínu vekja athygli á því að ég hef allt aðra túlkun bæði af umræðum í gær og tilgangi laganna en hér hefur komið fram. Hér er ekki verið að tala um að ríkisvæða sparisjóðina. Þvert á móti er ríkið að koma inn til að reyna að tryggja að sparisjóðirnir lifi áfram. Vitandi það að sparisjóðirnir búa við afar ólík skilyrði og það hefur ekki tekist að finna neina eina lausn fyrir alla sparisjóðina þá fellst ég á þessa grein og tel að það sé mikilvægt að menn fari varlega í niðurfærslu á stofnfé eða lækkun stofnfjár. Það verði gert með ólíkum hætti og ég vil vekja athygli á að við erum að samþykkja tillögu stjórnar sparisjóðs sem getur boðað til fundar stofnfjáreigenda. Það er það sem við erum að samþykkja og það er á forsendum þeirra sem eiga í sparisjóðnum. Þess vegna segi ég já.