137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er þyngra en tárum taki hvernig hluti sparisjóðakerfisins, stór hluti þess reyndar, er á sig kominn eftir þátttöku í hrunadansi undanfarinna ára með fáeinum virðingarverðum undantekningum þó, fyrst og fremst þeim sem kunnu fótum sínum forráð og fóru ekki út í þær vitleysur sem hafa að mestu leyti fellt fjármálakerfið á Íslandi. Það er mikilvægt að hafa það í huga að aðstoð ríkisins verður ekki neytt upp á einn eða neinn en hún mun standa til boða þeim sem óska eftir stuðningi ríkisins til að endurreisa sína sparisjóði, vonandi í samstarfi við fleiri aðila sem vilja styðja sparisjóðakerfið, endurreisa það og tryggja framtíð þess.

9. gr., sem hér er fjallað um, er sömuleiðis mjög mikilvæg til að heimila sparisjóðunum það samstarf sín í milli sem þeim mun verða nauðsynlegt ef þeir eiga að geta starfað sem sjálfstæð eining á eigin forsendum innan fjármálakerfis okkar. Málflutningur af því tagi sem uppi hefur verið á köflum, um að ríkið sé af einhverri óvild að taka völdin í sparisjóðakerfinu, er með öllu óskiljanlegur í ljósi eðlis þessa máls. Það er verið að búa til lagaumgjörð um stuðning sem sparisjóðum að uppfylltum skilyrðum mun standa til boða ef þeir sjálfir svo óska.