137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra: Ég bjó ekki til vandann. Það eru Vinstri grænir og Samfylkingin sem ætla að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar og hver leyfir sér að koma fram með yfirlæti, talandi niður til þingmanna sem leyfa sér að gagnrýna og mótmæla órökstuddum fullyrðingum annar en hæstv. fjármálaráðherra sem í gegnum árum hefur hoppað í ræðustól Alþingis algerlega brjálaður. Voru það ekki Vinstri grænir sem töluðu um það fyrir kosningar að þeir ætluðu ekki að samþykkja Icesave?

Ég ætla ekki að svara í þessari stuttu fyrirspurn öllum fullyrðingum. Þeim hefur þegar verið mætt, öllum fullyrðingum hefur verið mætt. En ég vil fá úr því skorið hér og nú, eru einhver gögn sem á eftir að leggja fram, álit frá erlendum lögmannsstofum sem eiga eftir að koma fram?