137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur að ég gagnrýni það að hv. þingmenn Framsóknarflokksins séu með órökstuddar fullyrðingar eða eitthvað annað í þeim dúr. Ég vil bara að þeir geri það í sínum eigin ræðutíma, ekki mínum. Framsóknarmönnum er alveg gersamlega frjálst og meinlaust af minni hálfu að haga málflutningi sínum eins og þeir vilja en helst vil ég að þeir geri það í sínum eigin ræðutíma en ekki mínum. Það var það sem ég var að fara fram á.

Það er misskilningur að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi gengið til kosninga með það baráttumál að það ætti alls ekki að útkljá Icesave-deiluna. Það hefði ekki verið gæfulegt fyrir flokk hvers formaður bar þá ábyrgð á samningaviðræðum um málið. Það lá algerlega fyrir og er búið að vera opinbert síðan í febrúar að málið var í samningafarvegi þannig að það liggur fyrir.

Varðandi spurninguna um gögn er svarið nei. Mér er ekki kunnugt um, ég hef aldrei séð neitt skjalfest í þessu máli, eða skjallegt, sem ekki liggur í möppunum tveimur, annars vegar þeirri stóru með 68 skjölum sem er öllum aðgengileg, hins vegar þessari minni með rúmlega 20 skjölum sem þingmenn hafa aðgang að.