137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins gott að það séu ekki einhver gögn sem liggja óséð. Það væri í hæsta máta vandræðalegt fyrir ríkisstjórn sem hefur talað fyrir því upp á síðkastið að allt sé uppi á borðum en þó virðist sem allt sé undir borðum og leynd og blekking eru einmitt orðin sem einkenna þessa ríkisstjórn.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því, ef hann telur að þetta séu bestu hugsanlegu kjör sem við getum fengið á erlendum lánum, getur þá ekki verið að ef okkur standa ekki til boða annað en verri kjör í framtíðinni, er það þá ekki þannig að Icesave-samningarnir kveða einmitt á um það að vextirnir á þeim samningi hækka og verða mun hærri en þessi rómuðu 5,55% vextir? Mér þætti gaman ef hann mundi svara þeirri spurningu.