137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í greinargerð frumvarpsins er farið rækilega yfir þau atriði sem hv. þingmaður nefndi. Það er rakið hvernig Ísland reyndi að bera fyrir sig óvissu um umfang ábyrgðanna, galla regluverksins og annað í þeim dúr. Það er allt saman rækilega rakið í greinargerðinni.

Það var metið þannig, rétt eins og var í nóvember þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók fyrir upphaflegu samstarfsáætlunina og afgreiddi fyrsta hluta lánsins, að væru samningaviðræður á útmánuðum í góðri trú og í eðlilegum framgangi þá mundi það ekki á grundvelli fyrri yfirlýsinga hindra fyrirtekt nr. 2. En samhengi málsins hefur legið ljóst fyrir. Það var þegar opinbert í nóvember og desember. Ég bendi hv. þingmanni t.d. á að lesa greinargerð þingsályktunartillögu sinnar eigin ríkisstjórnar sem þá var, í desember, eða lesa framsöguræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, þar kom þetta allt fram. Það sem ég sagði um þetta mál í aðdraganda kosningabaráttunnar (Forseti hringir.) og á útmánuðum var nákvæmlega í samræmi við stöðu þess þá.