137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra og reynir að tala sig út úr því að hann minntist aldrei einu einasta orði á að ástæðan fyrir því að við fengjum ekki lánafyrirgreiðslu væri sú að ekki væri búið að ganga frá Icesave. Ekki einu einasta. Og það er nákvæmlega sama hversu mörgum plöggum hæstv. ráðherra dreifir fyrir þingmenn. Það er kominn tími á það að hann segi satt og rétt frá. Af hverju er það svo að núna er þetta orðin helsta röksemdin fyrir Icesave-málinu? Fyrir nokkrum vikum, í aðdraganda kosninga, þegar við spurðum hæstv. ráðherra hvað eftir annað út í það af hverju við fengjum ekki þessa lánafyrirgreiðslu, þá var aldrei, ekki einu orði minnst á það, ekki einu orði. Annaðhvort hefur hæstv. ráðherra ekki verið að sinna starfi sínu þá og ekki vitað betur sem er mjög alvarlegt eða hér er hæstv. ráðherra að bera fyrir sig rök sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.