137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Staðreyndin er sú að það var ekki óútkljáð Icesave-mál sem tafði fyrirtekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í lok mars eða apríl. Það var það ekki. Það var unnið að því máli þannig að sú fyrirtekt að öðrum skilyrðum uppfylltum gæti farið fram að því tilskildu að viðræður um Icesave-málið væru áfram í gangi og í góðri trú. Þetta er hægt að sýna hv. þingmanni ef hann hefur áhuga á staðreyndum málsins, m.a. sanna það skjallega. Og það var margfarið yfir það hér hvað leiddi til þess að endurskoðunin tafðist. Það voru að koma nýjar upplýsingar um skuldastöðu þjóðarbúsins. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom mun seinna en til stóð, m.a. vegna stjórnarskipta. Janúarmánuður fór allur forgörðum í að undirbúa framhaldið. Sendinefndin dvaldi hér lengur en ætlað var í upphafi og skýrði sjálf hvers vegna málinu hefði seinkað. Það var og er staðreynd málsins að á þeim tímapunkti var það ekki Icesave-málið sem tafði fyrir.