137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kristallast í þessu máli að Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð eru einfaldlega ekki í stakk búin til að stýra þessu landi. Af hverju segi ég það? Þegar við tölum um ábyrgð í fjármálum þá hef ég aldrei vitað að fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifuðu undir eina þá stærstu skuldbindingu sem verið er að skuldbinda íslenska þjóð, skrifuðu undir Icesave-samkomulagið án þess að greiðsluáætlun eða greiðslumat íslensks almennings lægi fyrir. Það á bara að skoða hlutina eftir sjö ár. Hvers lags ábyrgðarleysi er það hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn fyrir hönd íslensks almennings að skrifa undir slíkt án þess að greiðsluáætlun liggi fyrir? Greiðsluáætlun sem aðstoðarmaður hæstv. ráðherra sagði okkur í þingflokki framsóknarmanna að lægi ekki fyrir eftir að búið var að skrifa undir þessa samninga. Ég fordæmi þessi vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstjórn og þetta ber ekki merki um það að hér sé á ferðinni stjórn sem hefur tök á málum.