137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ákvæði 15. og 16. gr. samningsins hefur ekkert gildi. Þetta er bara venjulegt ákvæði þegar skuldari getur ekki greitt. Þá verður enn og aftur reynt að semja upp á nýtt. Það er ekki hægt annað. Ef hann getur ekki greitt þá getur hann ekki greitt. Þetta þekkja allir. (Gripið fram í: Þá verður gjaldfellt.) Þá verður gjaldfellt og þá eru Íslendingar í mjög slæmri stöðu. Þá getur vel verið að við þurfum að samþykkja að skoskir togarar megi veiða á Íslandsmiðum. Þá getur vel verið að við þurfum að láta landhelgina upp í o.s.frv. Við erum svo gersamlega í glataðri stöðu. Þetta eigum við að semja um fyrir fram og segja: Við borgum allt sem samningurinn segir, upp að ákveðnu hlutfalli af þjóðarframleiðslu, eitthvað sem íslenska þjóðin getur greitt (Gripið fram í.) og það er hagur allra þessara þriggja þjóða að íslenska þjóðin geti greitt og sjái að hún geti greitt þannig að hún fyllist bjartsýni á því að vinna sig út úr verkefninu. Þetta finnst mér vera það mikilvægasta og ég spyr aftur: Ef við gerðum breytingartillögu á Alþingi um að ákveðið hámark yrði sett á þessar greiðslur sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, hvað telur hæstv. ráðherra að samningsaðilar okkar mundu segja við því?