137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað hagur allra sem lána peninga að fá þá til baka. Það gildir ekki bara um þennan lánasamning við Hollendinga og Breta. Það gildir um lánasamningana við hin Norðurlöndin. Það gildir líka um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Meira að segja hann vill fá sína peninga til baka og er bara nokkuð þekktur fyrir það að vilja rukka þá inn.

Það er ekki ætlunin með því endurreisnarprógrammi sem nú er með alþjóðlegri samvinnu í gangi gagnvart Íslandi að knésetja Ísland. Ætlunin er hin gagnstæða og þetta mál er hluti af því. Auðvitað geta menn búið sér til þá heimsmynd að allir séu vondir við aumingja litla Ísland og þetta sé allt af einhverri óvild gert eða lymskulegum áformum til að koma okkur á kné. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að Norðurlöndin séu t.d. ekki að lána okkur miklar fjárhæðir í einhverjum annarlegum tilgangi heldur séu þau þvert á móti að taka stöðu með Íslandi og þau leggja undir með Íslandi og þau vilja að Ísland komist í gegnum erfiðleikana og komist á lappirnar. Hvernig væri að hugsa þetta þá stundum þannig? (Forseti hringir.) Öryggisákvæðið eða endurskoðunarákvæðið er þvert á móti mjög óvenjulegt, hv. þingmaður, alls ekki venjulegt. Það segja allir sem þekkja til alþjóðlegra samninga af þessu tagi. (Forseti hringir.) Þetta er mjög óvenjulegt endurskoðunarákvæði og helgast af hinum sérstöku aðstæðum.