137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get bara gert mér í hugarlund hvað hv. þingmaður átti við með þessum orðum. Ég get mér til um það að þarna hafi verið vísað til þess mikla gjaldeyrisskorts sem var að verða í landinu. Það var vísað til þess að heildsalar um alla Evrópu höfðu sagt upp innkaupatryggingum við íslenska innflytjendur. Það var vísað til þess að íslenskir innflytjendur þurftu að sæta þeim skilmálum um alla Evrópu að staðgreiða allar sínar vörur. Gjaldeyrisskortur og viðskiptahöft af þessum toga voru farin að hafa alvarlegar afleiðingar, stefndu olíubirgðum Íslands í ákveðna hættu og ákveðið uppnám og meira að segja þurfti Seðlabankinn þar að grípa inn í vegna þess að íslensku viðskiptabankarnir voru orðnir vanhæfir til að stunda eðlilega greiðslumiðlun með gjaldeyri. Allt þetta gat leitt til þess að vöruskortur kæmi upp (Forseti hringir.) í landinu.