137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski um þetta að segja til viðbótar við það sem ég tók fram áðan að auðvitað höfðu Bretar gripið til alveg sérstaklega harkalegra aðgerða. Í reynd stöðva þeir bankaviðskipti við Ísland. Staðan var orðin sú að það þorði enginn banki í Bretlandi að eiga nokkur einustu viðskipti við Ísland af ótta við að gerast brotlegur við hryðjuverkalögin og smám saman greip jafnframt um sig sá ótti um alla Evrópu, að það væri ekki óhætt að senda neina peninga til Íslands vegna þess að þeir mundu lenda inni í þrotabúum gömlu bankanna og ekki komast til sinna réttu eigenda. Í þessu sambandi var það meira að segja sérstakt vandamál að menn notuðust við nöfn gömlu bankanna með því að bæta við fyrir framan nafn þeirra heitunum Nýi Landsbankinn, Nýi Glitnir o.s.frv., ef ég man rétt.

Er það ekki merkilegt að í stað þess að fordæma þessar aðgerðir, einangrun landsins, þá koma stjórnarliðarnir upp og fara að rifja upp einkavæðingarferli bankanna og skrifa allt það sem nú á að fara að gera á reikning fyrri stjórnvalda?